133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[15:47]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem í andsvar vegna þess að mér fannst þetta ákaflega undarleg ræða. Opinberir starfsmenn eiga ekki að taka þátt í nýsköpun, sagði hv. þingmaður. Þeir sem koma til með að stjórna þessu, þótt ekki ætli ég mér að hlaupa í vörn fyrir ríkisvaldið, velja verkefni sem frumkvöðlarnir hafa fundið upp. Þeir velja verkefni sem vantar fjármagn í og eru ekki í samkeppni við þá sem ólmir vilja leggja peninga í slík verkefni. Auðvitað eru þeir sem eru áhættusæknir og hafa áhuga á að taka þátt í frumkvöðlastarfsemi velkomnir í bransann. Það hefur bara vantað fjármagn inn í þetta. Ég verð að segja að mér fannst þetta dálítið undarleg ræða.

Ég geri ráð fyrir því að flestir frumkvöðlar í þessu landi telji að peninga vanti í nýsköpun, ekki bara lánsfé heldur líka áhættufé, þar sem einhverjir eru tilbúnir að leggja fjármuni fram með þeim, taka þátt í að fjármagna fyrirtæki sem frumkvöðlar vinna að að verði að veruleika.

Mér fannst mjög sérkennilegt hvernig hv. þingmaður lét að því liggja að þeir sem stjórnuðu svona sjóði gætu ekki gert það af því þeir væru opinberir starfsmenn og kynnu ekki að taka þátt í frumkvöðlastarfsemi.