133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[15:49]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt meinið. Þeir sem velja verkefni hætta ekki til þess eigin fjármunum. Þeir hætta opinberu fé. Þeir taka enga áhættu sjálfir. Þeir halda launum sínum, lífeyrisréttindum og stöðu sinni óbreyttri þótt allt fari í kaldakol. Þetta er hættan við svona verkefni. Í því felst vandinn.

Ef menn hætta eigin fé þá er það í lagi. Þá eru þeir ábyrgir, vakandi og tiplandi á tánum og hugsa um hvernig megi bjarga rekstrinum þegar illa fer. En það gerist ekki með opinbert fé. Þeir menn eru búnir í vinnunni klukkan 5 og svo mæta þeir klukkan 9 daginn eftir og þá er fyrirtækið farið á hausinn.

Munurinn er sá að þegar menn hætta opinberu fé, fé sem hefur fengist með sölu á Landssímanum eða öðrum mörkuðum fjármunum sem ríkið á, þá taka menn ekki áhættu. Það breytist ekkert hjá þeim þótt peningarnir glatist. Ekki neitt. Það er þeim ekki einu sinni álitshnekkir.

Það er vandinn við að vera með opinbert fé í nýsköpun. Ég vildi frekar skora á hæstv. ráðherra og hans ráðuneyti að skoða leiðir, fara í gegnum ferlið að því að stofna fyrirtæki, hvernig menn fá allar eftirlitsnefndirnar yfir sig sem sumir úti á landi hafa sagt að skilji eftir sig sviðna jörð.