133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[15:53]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég bað um orðið vegna þess að ég gat ekki stillt mig um að andmæla ýmsum fullyrðingum og fordómum í máli hv. þingmanns. Ég hélt um tíma að hann væri að skemmta og stríða en sannfærðist svo um að full meining var í orðum hv. þingmanns. Það sem ég kalla fordóma eru þær yfirlýsingar hans að opinberum starfsmönnum sé ekki treystandi og þeir sinni ekki nýsköpun. Ég hlýt að mótmæla því og annaðhvort er þetta vanþekking eða fordómar hjá hv. þingmanni.

Ég hlýt að andmæla því að opinberir starfsmenn sinni ekki störfum sínum lengur en til klukkan 5 og standi slétt á sama um þau verkefni sem þeir fást við. Það er nefnilega svo, virðulegur forseti, að mælikvarðinn er ekki alltaf peningar, eins og kannski er hjá hv. þingmanni, heldur og ýmis siðferðileg gildi svo sem áhugi og metnaður í starfi.

Hafi það farið fram hjá hv. þingmanni höfum við séð mjög öfluga og framsækna nýsköpun hjá ýmsum opinberum stofnunum. Ég nefni t.d. skóla þar sem eru fjölmargir opinberir starfsmenn sem hafa sinnt nýsköpun með glæsibrag. Ég nefni ýmsar heilbrigðisstofnanir sem standa jafnvel að útflutningi nýsköpunarverkefna. Ég nefni einnig Vegagerðina og Rarik. Og ætli megi ekki nefna Orkustofnun sem hefur haslað sér völl víða erlendis? Með hvað? Með nýsköpun sem opinberir starfsmenn hafa sinnt.

Á stundum er þeim nýsköpunarverkefnum sem opinberar stofnanir hafa sinnt úthýst, þau fylgja kannski starfsfólki og er svo allur gangur á því.

Nýsköpun er sannarlega mikil á Íslandi samkvæmt úttekt OECD. En ef til vill er það aðgengið að hinu fræga, þolinmóða fjármagni sem helst hefur verið kvartað undan. Ég lít svo á að með þessu móti sé hið þolinmóða fjármagn örvað.