133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[16:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það liggur við að ég gæti fallið frá orðinu því að hv. þm. Hjálmar Árnason kom að því sem ég ætlaði að taka hér aðeins upp. Mér finnst ekki hægt að láta þessari umræðu ljúka á þeim nótum sem hv. þm. Pétur Blöndal fór með hana niður á, þ.e. sinn hefðbundna söng um hina opinberu starfsmenn sem ekki vinna vinnuna sína, sem leggja sig ekki fram, sem fara illa með fé af því þeir eiga það ekki sjálfir. Það er ekki hægt að láta þingmann á löggjafarsamkundunni komast upp með það árum saman að tala á þessum nótum. En það hefur hv. þm. Pétur Blöndal gert.

Nú veit ég að það er vegna þess að þetta er sannfæring hans. Það er lífsskoðun hans að þannig sé þessu háttað. Þann botn fæ ég í þetta mál að hv. þingmaður sé sannfærður um að svona sé þetta í veruleikanum, að t.d. fólk sem vinnur hjá hinu opinbera og fer á einhvern hátt með verkefni og þar með talið verðmæti eða fjármuni sem þaðan koma, þ.e. frá samfélaginu en er ekki þess eigið, muni hegða sér öðruvísi. Það muni ekki vera jafnábyrgt, muni ekki reyna að fara jafn vel með þessa fjármuni og ef það ætti það sjálft.

Það er auðvitað alveg yfirgengilegt að alhæfa með þessum hætti. Hver eru þau náttúrulögmál, hvað er það í mannlegu eðli, á hvaða félagsfræði- og atferlisfræðiforsendum byggir hv. þm. Pétur Blöndal það mál, að mannskepnan, tegundin homo sapiens, sé svona úr garði gerð? Vill ekki stærðfræðingurinn fara að upplýsa okkur um þetta? Það er ekki lítið sagt þegar menn leggja hlutina endalaust upp með þessum hætti. Endalaust kemur hv. þm. Pétur Blöndal hingað með þennan róg um það starfsfólk sem hefur ákveðið að vinna verkin sín í þágu samfélagsins og er á launaskrá hjá hinu opinbera.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér er farið að hundleiðast þetta. Mér er farið að hundleiðast að hafa mann á Alþingi sem er endalaust í þessum leiðöngrum uppi í ræðustól. Það er ekki hægt að bjóða tugþúsundum opinberra starfsmanna í landinu upp á þetta þar sem fólk í stórum stíl vinnur samkvæmt bestu samvisku undir miklu álagi, leggur sig allt fram og er ekki að því bara kaupsins vegna, eðli málsins samkvæmt.

Það er kannski akkúrat það fólk sem sýnir með verkum sínum og atferli að það lætur ekki stjórnast af fjárhagslegri ábatavon í lífi sínu og starfi. Hinir eru kannski einhvers staðar annars staðar. Hefur hv. þm. Pétur Blöndal einhvern tíma velt því fyrir sér? Síðan kemur hv. þingmaður og ruglar hér um það að hann hafi ekki trú á því að opinberir starfsmenn geti sinnt nýsköpun. Hvar stendur það í þessum plöggum að opinberir starfsmenn eigi að annast um nýsköpunarverkefnin sjálf? Ég les það hvergi hér.

Það er verið að reyna að búa til stuðningskerfi við þá nýsköpun sem ætlunin er að fari auðvitað fram úti í atvinnulífinu, að einstaklingarnir eða samtök þeirra, fyrirtæki eða hverjir það nú eru, annist. Fyrst og fremst byggir þó þessi hugsun á samstarfi. Ef hv. þm. Pétur Blöndal hefur ekki trú á því að opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, sjóðir, háskólar, stofnanir og atvinnulífið geti unnið saman að svona verkefnum verður hann nú að fara að beita sér fyrir verulegum uppskurði í þjóðfélaginu.

Út á hvað gengur þessi hugsun, hugsunin um menntun, um rannsóknir, um sjóði, annað en samstarf? Hvernig fer nýsköpun yfirleitt fram öðruvísi en í samstarfi? Þetta er um samstarf. Hefur ekki margt gott gerst þannig? Er það eitthvað verra eða óhreinna í huga þingmannsins ef opinberir aðilar koma einhvers staðar nálægt því? Þykir honum það heldur miður ef eitthvað heppnast þar sem opinberir starfsmenn hafa lagt hönd á plóg? Það mætti ætla það eins og hv. þingmaður talar. Það mætti ætla það. Og alhæfingar af því tagi að það hafi ævinlega allt fé, allt opinbert fé sem lagt er í nýsköpun, tapast eru algerlega yfirgengilegar. Eigum við að fara yfir það hvað hefur tapast annars staðar, hvað af annarra manna fé hefur tapast í nýsköpun sem hvergi kom nálægt neinum opinberum aðilum? Ætli það sé ekki þannig að mörg glæsilegustu gjaldþrot Íslandssögunnar og heimssögunnar hafi bókstaflega ekkert haft með opinberan rekstur að gera og opinbera starfsmenn? Það skyldi þó ekki vera.

Ég tel að ekki standi steinn yfir steini í þessum málflutningi þingmannsins og hann sé varla boðlegur hérna þegar við erum að ræða hluti af þessu tagi. Hvaða söngur er þetta eiginlega? Er hv. þingmaður t.d. á því að það frumkvæði sem hefur sprottið út úr háskólasamfélaginu og leitt til glæsilegrar nýsköpunar í atvinnulífinu sé bara einhver undantekning sem sannar þá reglu að aldrei geti neitt gott gerst ef hið opinbera kemur þar einhvers staðar nálægt?

Hvað með Marel? Hvaðan er það ættað? Það skyldi þó ekki vera að hið opinbera hafi haft eitthvað að segja þar og að rannsókna- og fræðistörf hafi lagt þar ákveðinn grunn. Svo mætti segja um svo ótal margt annað. Það eru glæsileg fyrirtæki starfandi í dag vegna þess að atvinnuþróunarfélög og samtök sveitarfélaganna með opinbert fé hlúðu að þeim og komu þeim á legg. Mörg glæsileg dæmi gæti ég nefnt hv. þingmanni um það. Það er vissulega alveg hárrétt að það eru líka margar tilraunir sem hafa mistekist. En hvað þýðir nýsköpun, eins og hv. þingmaður nefndi? Hún er auðvitað áhætta, eðli málsins samkvæmt, hvort sem menn tala um að eitt af hverjum 10 eða eitt af hverjum 50 fyrirtækjum séu í raun og veru ágætur árangur ef úr því verður að lokum stórt fyrirtæki á landsvísu eða jafnvel alþjóðavísu.

Ég er ekki viss um að það sé bara nokkuð til tækt í vísindum, rannsóknum eða könnunum til að undirbyggja það að árangurinn sé einhvern veginn öðruvísi í þessum efnum þó að opinberir aðilar komi að. Hvað er hv. þingmaður að leggja til? Vill hann leggja þetta allt saman niður? Á bara atvinnulífið að gera þetta? Eigum við að leggja niður opinbert rannsóknakerfi? Eigum við að leggja niður fyrirbæri af þessu tagi eins og Nýsköpunarmiðstöðin verður, eða forverar hennar hafa verið? Telur hv. þingmaður að það sé vænlegast?

Á hverjum mundi það helst bitna? Það mundi bitna á einyrkjunum. Það mundi bitna sérstaklega á litlu einingunum. Einu aðilarnir sem í raun og veru hafa af eigin rammleik bolmagn til að stunda þróunarstarf og sjálfstæðar rannsóknir og þurfa ekki á stuðningi að halda, hvorki frá fræðasamfélaginu, rannsóknasamfélaginu né hinu opinbera, eru stórfyrirtækin. Vissulega fer fram mikilvæg nýsköpun innan þeirra en hún er oft á sérhæfðum sviðum. Hún er oft bara rannsóknir á framlengingu þeirra ferla og þeirrar markaðsvöru sem viðkomandi fyrirtæki hafa með höndum og byggja á.

Ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér fræðin í þessum efnum, t.d. hvar menn almennt telja að gróskan sé í nýsköpun, í framsæknum atvinnugreinum, tækni- og þekkingargreinum. Hvar er hún? Er hún fyrst og fremst inni í stórfyrirtækjunum sem í sjálfu sér gætu spjarað sig og stundað rannsóknir? Nei. Hún er hjá einyrkjunum. Uppspretta nýrra hugmynda, nýrra tækifæra og reyndar nýrra starfa verður til í uppbyggingu nýrra fyrirtækja eða í vexti lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þar eru menn hins vegar iðulega mjög vanmegnugir að ráðast í miklar rannsóknir einir og sér og án stuðnings Slíkum aðilum getur samstarf við opinbera aðila verið gríðarlega mikilvægt.

Telur hv. þingmaður eitthvað að því? Er hann á móti því? Hefur hann virkilega þá trú að það sé í raun og veru gagnslaust bara um leið og einhverjir opinberir aðilar komi að því eða einhverjir starfsmenn sem eru launaðir af hinu opinbera? Og það sé vegna þess að þeir muni ekki leggja sig fram af þeim sökum? Hvað hefur hv. þingmaður fyrir sér í því að það sé alltaf farið illa með fé um leið og menn eiga það ekki sjálfir? Mér finnst þetta alveg yfirgengilegt.

Satt best að segja finnst mér þetta líka svo myrk heimsmynd. Þetta er svo myrk heimsmynd vegna þess að í raun og veru fær hún ekki staðist nema við gefum okkur þann útgangspunkt að maðurinn sé í eðli sínu spilltur. Það er eiginlega nauðsynleg forsenda vegna þess að annars hegðar hann sér ekki svona. Ef það er ekki þessi persónulega hagnaðar- eða græðgisvon sem drífur hann áfram nálgast hann viðfangsefni sitt á öðrum forsendum. Hann er t.d. bara mjög ánægður með að vera opinber starfsmaður að því tilskildu auðvitað sem hann á fullan rétt á að vera á góðum launum og fá sínum faglega metnaði fullnægt í starfi. Hann biður ekki um meira. Hann vill ekki meira. Það er lífsskoðun hans. Hvað er þá sem segir okkur að hann muni ekki leggja sig fram í starfi sínu, fara vel með fjármuni ef honum er trúað fyrir þeim o.s.frv.? Bara ekki nokkur skapaður hlutur.

Heimsmynd hv. þingmanns hrynur nema hann gefi sér forsendu af þessu tagi um eðli mannsins. Ég óska honum þess í raun og veru ekki, og ekki nokkrum manni, að þurfa að dragnast í gegnum lífið með eitthvað því um líkt. Ég hef vonandi misskilið hlutina eitthvað. Vonandi er það eitthvað annað sem hv. þingmaður á við þegar hann fer með alhæfingar sínar um opinbera starfsmenn og hegðun þeirra í starfi. Ég bið þá um útskýringar á því.

Við höfum tekið svona lotur áður, ég og hv. þingmaður og hann og hv. þm. Ögmundur Jónasson og fleiri. En það er kannski bara best að fara að tæma þetta mál af því að, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, mér finnst bara ekki nokkur leið að hlusta endurtekið á þetta árum saman, að hv. þingmaður komi upp í ræðustólinn með þessa formúlu sína. Það er ekki hægt að nota þennan pall hér til þess að tala svona til tugþúsunda samviskusamra og góðra og heiðarlegra Íslendinga.