133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[16:15]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að Enron-gjaldþrotið og Enron-hneykslið sé, ef ekki stærsta þá a.m.k. næststærsta gjaldþrot, líklega veraldarsögunnar af því að það er af þeirri stærð í bandarísku hagkerfi. Þá hefur væntanlega ekkert annað verið stærra. Ætli þeir hafi aðallega tapað sínu eigin fé, höfðingjarnir þar? Ætli það hafi ekki verið m.a. bara fé hlutafjáreigenda úti um öll Bandaríkin og ætli það hafi ekki verið lífeyrisréttindi starfsmannanna sem fóru þar í súginn og fleira í þeim dúr? Ábyrgðin var ekki meiri þar, ekki var þar við ríkið að sakast sérstaklega.

Ég tel bara, það er mín afstaða, það er mín skoðun — þannig fara ummæli hv. þingmanns í mig sem ég gerði grein fyrir áðan, t.d. tal um það að opinberir starfsmenn hristi það af sér bara eins og að drekka vatn, það valdi þeim ekki einu sinni álitshnekki, að tapa opinberu fé. Ég held að hv. þingmaður hafi orðað það einhvern veginn þannig. Þetta er auðvitað ekkert svona. Heldur hv. þingmaður að opinberir starfsmenn geti bara gert hvað sem er? Upplifir hann það þannig? Það skyldi þó ekki vera að það væri á köflum jafnvel meira eftirlit með því og opinberir starfsmenn, t.d. forsvarsmenn í opinberum rekstri, undir virkara aðhaldi en þegar kemur út í einkaframtakið, hver veit? Ég sé ekki alltaf að hegðun forstjóra í stórfyrirtækjum eða forustumanna þar, t.d. í nýeinkavæddum ríkisfyrirtækjum, sé endilega svo mikil, jafnvel á meðan þau voru enn í opinberri eigu en orðin háeffuð. Allar alhæfingar í þessum efnum held ég að séu mjög varasamar. Það er kannski það sem aðallega fer í taugarnar á mér þegar hv. þingmaður dregur hér upp þessa svart/hvítu heimsmynd sína og mér finnst það vera ósæmilegur málflutningur í garð (Forseti hringir.) þess fólks sem er opinberir starfsmenn í landinu og vinnur vinnuna sína vel og heiðarlega.