133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[16:19]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að það beri að sýna opinberum starfsmönnum tilhlýðilega virðingu þegar fjallað er um framlag þeirra til atvinnulífsins og nýsköpunar sem er allmikið og ber að meta að verðleikum eins og hv. þingmaður benti á áðan.

Erindi mitt hingað í ræðustólinn að þessu sinni er hins vegar að benda á þá vöntun sem er á stuðningi við hefðbundna atvinnusköpun og frumkvöðlastarf kvenna á landinu, þá sérstaklega kvenna á landsbyggðinni en þetta frumvarp kemur ekki til móts við þær.

Hér segir í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Með sprotafyrirtækjum er átt við fyrirtæki með innan við 50 starfsmenn og ársveltu innan við 500 millj. kr. sem byggir starfsemi sína á sérhæfðri þekkingu, tækni eða öðru nýnæmi og ver meira en 10% af veltu í viðurkennda rannsókna- og þróunarstarfsemi, sbr. athugasemdir með 5. gr. frumvarps til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.“

Það er til nóg af hugviti meðal kvenna úti á landsbyggðinni og þær hafa margar af veikum mætti stofnað lítil fyrirtæki einar og sér og fengið til þess yfirleitt allt of lítinn stuðning. Ég þekki til margra fyrirtækja kvenna sem eru vel rekin og sem hafa nýtt sér allar leiðir til stuðnings, lána og styrkja sem mögulegar eru en eru komnar að leiðarlokum hvað það varðar og geta þess vegna ekki eflt starfsemi sína. Þetta er mikill skaði, virðulegi forseti, vegna þess að eins og við mörg hver vitum er atvinnustarfsemi úti á landsbyggðinni afar fábreytt, og ekki hvað síst þau atvinnutækifæri sem bjóðast konum. Konurnar nýta auk þess mjög oft sérstakar aðstæður í heimabyggð, nýta sér náttúruna til ýmiss konar framleiðslu sem er í sjálfu sér mjög jákvætt.

Þetta frumvarp sýnist mér koma fyrst og fremst til móts við stórhuga menntafólk, sem er í sjálfu sér mjög gott, en það þurfa að vera til leiðir til að koma til móts við þá sem ekki hafa — ja, hvort sem fólk hefur skólagöngu að baki, langa eða ekki, fólk sem býr yfir þekkingu og hugkvæmni til að koma á fót atvinnustarfsemi, og þá horfi ég sérstaklega til kvenna. Við vitum líka og rannsóknir hafa sýnt það að konur eru afar varfærnar, hætta ekki fé sem ætlað er til heimilis og þaðan af síður hætta þær heimilum sínum eins og stundum er gert ella.

Þetta var erindi mitt, virðulegi forseti, að benda á að það er ástæða til þess að tryggja stuðning og ekki bara þann litla stuðning sem er hægt að finna í dag heldur mjög aukinn stuðning, sérstaklega til atvinnuþróunar og nýsköpunar kvenna.