133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[16:23]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Þetta hafa verið mjög víðtækar hugmyndafræðilegar og heimspekilegar umræður sem ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að blanda mér í að öðru leyti en því að benda á að því fer fjarri að frumvarpið geri ráð fyrir því að ráðherra skipti sér beint af nýsköpun. Það er gert ráð fyrir að ráðherrann staðfesti starfsreglur, verklagsreglur stjórnar, og það er gert ráð fyrir að hann komi að málum þegar um er að ræða ráðstöfun á því fé sem kemur vegna sölunnar á Landssíma Íslands.

Í öðru lagi hef ég metið frumvarpið á allt aðra lund en hv. síðasti ræðumaður sem hér talaði. Ég vona að ef eitthvað vantar á það að þetta frumvarp geti komið til móts við þarfir kvenna í sprotafyrirtækjum verði það skoðað sérstaklega í þingnefnd.