133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[16:26]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju, töluvert breytt frá því sem var sl. vor. Við endurskoðun frumvarpsins voru breytingartillögur meiri hluta iðnaðarnefndar frá síðasta vori teknar inn í frumvarpið.

Þær voru í stuttu máli þessar:

Nýsköpunarmiðstöð Íslands er með skýrum hætti skipt í tvö fagsvið, ráðgjafarsvið og Íslenskar tæknirannsóknir. Ráðgjafarnefnd er sett á fót við Íslenskar tæknirannsóknir. Tækniþróunarsjóður heyrir áfram undir iðnaðarráðherra. Ákvæðum um heimild til stofnunarinnar til að eiga hlutdeild í rannsóknarfyrirtækjum er breytt. Loks er sett bráðabirgðaákvæði um skipan nefndar til að meta hvaða rekstrarform henti best fyrir starfsemi stofnunarinnar í framtíðinni. Að auki hafa verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands verið skýrð betur, m.a. hvað varðar byggðamálefni og hagnýtingu hönnunar. Þá hefur stöðu Byggðasjóðs verið gjörbreytt þar sem nú er lagt til að hann verði sérstakur sjóður sem heyri undir yfirstjórn iðnaðarráðherra í stað þess að vera sjóður vistaður hjá eða í Nýsköpunarmiðstöð Íslands eins og áður var lagt til. Loks er kveðið á um að lögin öðlist gildi 1. ágúst árið 2007.

Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og frumvarpi sem forsætisráðherra leggur fram um breyting á lögum um Vísinda- og tækniráð.

Markmið frumvarpsins er óbreytt frá því sem var síðasta vor, þ.e. að endurskipuleggja alla starfsemi iðnaðarráðuneytisins sem fjallar um tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun í þeim tilgangi að gera hana markvissari og árangursríkari. Slík endurskipulagning er nauðsynleg í ljósi breyttra atvinnuhátta, vegna aukinnar samkeppni um erlend samstarfsverkefni og vegna þess að skapast hefur svigrúm til að færa meira af verkefnum út á almennan markað fyrr en hefur verið. Með endurskipulagningu er unnt að ná fram samlegðaráhrifum sem eru langt umfram þann árangur sem vænta má ef starfsemin er rekin sem aðskildar einingar. Einnig er horft til þess að með endurskipulagningu má auka árangur af samstarfi við háskóla og fyrirtæki.

Til að ná þessu markmiði er lagt til að ný stofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, verði til við sameiningu Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Starfssvið þessara þriggja stofnana er hliðstætt og skarast að nokkru leyti enda er hlutverk þeirra allra að vinna að nýsköpun og atvinnuþróun í þágu samkeppnisstöðu landsins og bættra lífskjara landsmanna. Einnig er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður, Byggðasjóður, á grundvelli fjármálastarfsemi Byggðastofnunar sem hafi það hlutverk að veita lánsábyrgðir. Ástæða er til að nefna nokkur atriði sérstaklega sem miklu skipta í þessu máli.

Í fyrsta lagi er það mikilvægt stefnumið að sameina starfsemi og aðgerðir í einum sameinuðum vettvangi til að tryggja sem best árangur og skilvirkni. Þessu tengist einnig sú viðleitni að færa ákvarðanir og umsýslu út fyrir ráðuneytið sjálft og út á mörkina sem næst þeim aðilum í atvinnulífi og byggðum sem þessi mál varða og eiga hagsmuna að gæta.

Í öðru lagi er aukin áhersla lögð á viðhorf og úrlausnir í anda nýsköpunar með nýjar atvinnugreinar sérstaklega í huga. Þessu tengist líka sú viðleitni að starfa sem mest með tengingu við frjálst framtak á opnum markaði.

Í þriðja lagi er lögð áhersla á að sömu meginviðmið ráði um land allt, þ.e. að nýsköpunarviðhorfin verði höfð í huga í öllum ákvörðunum og aðgerðum, einnig þeim sem varða beinlínis byggðamál og byggðaaðgerðir. Sannleikurinn er sá að landsbyggðin hefur alveg sérstaka þörf fyrir sterka nýsköpunarstefnu enda liggur það fyrir að hefðbundnar, svokallaðar eldri atvinnugreinar hafa fækkað starfsfólki en ýmsar nýjar atvinnugreinar, svo sem ferðaþjónusta, hátæknirekstur, rekstur sem byggist á vísindum og rannsóknum o.fl., hafa möguleika á því að auka mannafla við ný störf. Þannig verður þessi áhersla sérstaklega mikilvæg einmitt fyrir landsbyggðina.

Í fjórða lagi tengjast þessar breytingar viðhorfum sem snerta viðfangsefni og framtíðarsýn í byggðamálum. Öllum er ljóst að byggð og samfélag hafa gjörbreyst á landi hér á síðustu öld. Mörgum hefur virst sem Ísland sé að þróast í þá átt að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna safnist saman á einu landshorni. Nú er byggðastefnu og aðgerðum í byggðamálum reyndar ekki ætlað það hlutverk að ráða yfir byggðaþróun með neins konar ofurveldi heldur einkum að leitast við að tryggja jöfn lífstækifæri, atvinnu- og menningarskilyrði landsmanna hvar svo sem þeir æskja að búa á landinu, að auðvelda aðlögun að breyttum aðstæðum og kröfum og veita stuðning framtaki og fyrirtækjum og nærsamfélögum þar sem herðir að vegna þróunarinnar.

Jafnframt ber að hafa það í huga að breytingar í atvinnuháttum og byggð eru margþætt ferli og geta líka opnað einhver ný tækifæri og möguleika á sumum svæðum. Það er síðan annað mál hvort fólkið í byggðunum kýs að nýta einmitt þessi nýju tækifæri eða vill heldur fara aðrar leiðir, en það er í verkahring stoðstofnana samfélagsins að aðstoða við alla þá viðleitni sem fólkið kýs til þess að efla og styrkja byggðirnar.

Í fimmta lagi vil ég taka það fram að það eru auðvitað fleiri aðgerðir og stofnanir sem koma við sögu í byggðamálum. Framþróun og uppbygging skóla og annarra fræðslu- og menntastofnana gegnir gríðarmikilvægum hlutverkum svo og tækifæri til fjarnáms. Aðgerðir varðandi aðstöðu og öryggi ungbarna, barnafjölskyldna og aldraðra skipta miklu. Vegaframkvæmdir og vegáætlun, opnun jarðganga, fjarskiptamál, sími, tölvutengingar, flugsamgöngur og annað þessu tengt varðar miklu fyrir byggðirnar eins og allir sjá. Þróun í gerð jarðganga mun skipta sköpum víða á næstu árum.

Auk Byggðastofnunar, sem verður Nýsköpunarmiðstöð og Byggðasjóður samkvæmt frumvarpi þessu, má einnig nefna byggðaáætlun sem Alþingi afgreiðir svo og flutning opinberra stofnana og opinberra starfa út um landið. Á grundvelli byggðaáætlunar er m.a. unnið að svæðisbundnum vaxtarsamningum með áherslu á klasaþróun, þjónustugreinar, hátækni og mannauðsþróun. Mikilvægt er að jafna aðgengi landsmanna að menningarviðburðum og þjónustu eftir föngum en fyrir liggur að góð menntun og vandað fjarskiptakerfi geta minnkað eða eytt mismun sem leiðir af fámenni og fjarlægðum.

Hugmyndin er að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði þekkingarsetur sem tekur mið af starfsemi sem erlendis er almennt nefnd „Centers of expertise“. Í þekkingarsetri tengjast saman tæknirannsóknir með tengsl við rannsóknir í háskólum og háskólasetrum annars vegar og þróunarstarfsemi fyrirtækja hins vegar. Þar verður miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem fást við hvers konar nýsköpunarvinnu. Þar verður að finna frumkvöðlasetur sem aðstoðar sprotafyrirtæki og frumkvöðla við þróun nýsköpunarhugmynda og veitir þeim aðstoð við að vaxa fyrstu rekstrarárin. Þá verður unnið að greiningum á stöðu og þróun atvinnulífs og byggðarlaga, m.a. til þess að unnt verði að bregðast við aðsteðjandi vanda hverju sinni með öllum þeim tækjum sem þekkingarsetrið Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun búa yfir.

Efling starfseminnar úti á landi er ein af forsendum þessara breytinga. Atvinnuþróunarfélög og atvinnuráðgjafar fá veigameiri hlutverk en áður með því að stefnumótun og framkvæmd verkefna verði í auknum mæli færð heim í hérað. Þekkingarsetur á landsbyggðinni verða þungamiðja atvinnusóknar sem einkum mun byggjast á helstu styrkleikum atvinnulífsins á viðkomandi svæði og getu þess til að ná árangri á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Einkum er horft til uppbyggingar þekkingarsetra á Akureyri, Ísafirði og á Egilsstöðum, þ.e. Miðausturlandi, enda hefur styrking landshlutakjarna á þessum stöðum verið eitt af markmiðum byggðaáætlunar stjórnvalda. Háskólasetur Vestfjarða og Þekkingarnet Austurlands mynda nú þegar kjarna vaxtar í þekkingarsetrum á þessum stöðum, Háskólinn á Akureyri og sú starfsemi sem fer fram í Rannsókna- og nýsköpunarhúsinu þar og enn frekari vöxtur rannsókna og nýsköpunarstarfsemi í væntanlegum Tæknigarði er sú umgerð sem mun mynda kjarna starfseminnar á Norðurlandi.

Það á ekki að fara á milli mála að með þessum tillögum vill iðnaðarráðuneytið blása til sóknar í rannsóknum og atvinnuþróun um allt land. Slíkrar sóknar og endurnýjunar er þörf enda eru framfarir örar og ef við viljum njóta bættra lífskjara í framtíðinni verða að koma til nýjar áherslur sem atvinnuþróunin, t.d. á landsbyggðinni, getur byggt á.

Hlutverki Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er í frumvarpinu skipt í fjóra meginþætti sem raktir eru í 2. gr. þess.

Í fyrsta lagi er lagt til að stofnuninni beri að miðla þekkingu og veita stuðningsþjónustu fyrir frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.

Þá beri stofnuninni að greina stöðu og þróun búsetuskilyrða og atvinnulífs og vinna áætlanir sem hafa það að markmiði að stuðla að samkeppnishæfni atvinnulífs og treysta byggð í landinu.

Í þriðja lagi skuli stofnunin stunda tæknirannsóknir, þróun, greiningar, prófanir, mælingar og vottanir.

Loks beri henni að fara með málefni sérstakra sjóða eftir því sem nánar er kveðið á um í frumvarpinu.

Í I. kafla frumvarpsins er lagt til að starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands verði í meginatriðum skipt í ráðgjafarsvið annars vegar og Íslenskar tæknirannsóknir hins vegar. Starfssvæði beggja sviða er landið allt.

Á ráðgjafarsviðinu skal rekin þjónustumiðstöð fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Þjónustumiðstöð sem þessi hefur verið rekin um nokkurt skeið undir heitinu Impra á Iðntæknistofnun Íslands og hefur starfsemi hennar þótt gefa góða raun. Meðal hlutverka ráðgjafarsviðsins verður að auka veg hönnunar og vekja fyrirtæki til vitundar um mikilvægi hönnunar í nýsköpun og vexti. Þá mun ráðgjafarsviðið einnig vinna áætlanir sem stuðla eiga að jöfnun lífskjara í landinu. Ráðgjafarsviðið mun í staðbundinni starfsemi hafa samráð við atvinnuþróunarfélög.

Sú rannsóknastarfsemi sem lagt er til að stunduð verði á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands verður starfrækt undir heitinu Íslenskar tæknirannsóknir. Lagt er til að í starfseminni skuli lögð áhersla á hagnýtar rannsóknir og vöruþróun í þágu nýsköpunar atvinnulífsins auk þess sem stundaðar skuli grunnrannsóknir á afmörkuðum sviðum sem hafa þjóðhagslega þýðingu. Stofnuninni verði óheimilt að stunda rannsóknastarfsemi á viðskiptalegum grundvelli nema í formi sérstakra félaga með takmarkaðri ábyrgð. Lagt er til að stofnuninni verði heimilað að stofna, eiga, reka og selja slík félög sem stofnuð eru utan um rannsóknir sem taldar eru í samkeppni við atvinnulífið. Megintilgangurinn með þessari heimild er að koma í veg fyrir að verðmæti sem verða til í rannsóknastarfseminni glatist. Sú leið að heimilt sé að stofna félag um viðkomandi starfsemi á að tryggja að samkeppnisreglur verði virtar í starfsemi stofnunarinnar.

Við Íslenskar tæknirannsóknir verður starfrækt ráðgjafarnefnd. Í henni sitja fulltrúar atvinnulífsins og háskólanna. Er nefndinni ætlað að vera ráðgefandi um fagleg málefni og val á verkefnum.

Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður á grundvelli fjármálastarfsemi Byggðastofnunar og nefnist hann Byggðasjóður. Sjóðurinn heyri undir yfirstjórn iðnaðarráðherra og hlutverk hans verði að taka þátt í ábyrgðum á lánum banka sem m.a. eru veitt til stofnunar fyrirtækja, nýrra fjárfestinga, nýsköpunar á landsbyggðinni og til uppbyggingar atvinnulífs á svæðum þar sem sérstök áföll valda verulegu atvinnuleysi. Lagt er til að Byggðasjóði verði heimilt að veita ábyrgðir með allt að 75% ábyrgðarþátttöku sjóðsins. Fimm manna stjórn sjóðsins verði skipuð til þriggja ára í senn en hlutverk hennar verði að setja reglur um starfsemi hans og skilyrði fyrir veitingu ábyrgða sem háðar eru samþykki fjármálaráðherra.

Veiting lánsábyrgða er vel þekkt aðferð og eru starfræktir lánsábyrgðarsjóðir í nær öllum Evrópulöndum sem gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja fyrirtækjum aðgang að fjármagni. Opinberir aðilar í nágrannalöndunum veita slíka þjónustu og hefur hún þótt gefa góða raun.

Í III. kafla frumvarpsins er lagt til að ákvæði um Tækniþróunarsjóð verði í sömu lögum og ákvæði um Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Byggðasjóð. Sjóðurinn verður áfram sérstakur sjóður sem heyrir undir yfirstjórn iðnaðarráðherra. Tækniþróunarsjóður starfar í dag á grundvelli laga nr. 4/2003, um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins. Ekki eru lagðar til breytingar á hlutverki sjóðsins og úthlutunarreglum við flutninginn. Lagt er til að hlutdeild atvinnulífsins í stjórn sjóðsins verði aukin og að Samtök atvinnulífsins tilnefni tvo menn í stjórn sjóðsins en á móti falli niður að formaður tækninefndar sitji í stjórninni og einn samkvæmt tilnefningu rannsóknastofnana atvinnulífsins.

Í IV. kafla er lagt til að starfræksla tryggingardeildar útflutnings verði færð frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Lagt er til að heiti sjóðsins verði breytt og hann kallaður „Tryggingarsjóður útflutnings“ í stað tryggingardeildar útflutnings. Ekki er með flutningnum lagt til að gerðar verði breytingar á hlutverki eða starfsemi sjóðsins að öðru leyti en því að ekki er gert ráð fyrir að stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins tilnefni einn mann af fimm í stjórnarnefnd sjóðsins heldur verði einn stjórnarmanna skipaður af Samtökum atvinnulífsins. Sjóðurinn flytur eigið fé með sér og heldur skyldum sínum gagnvart viðsemjendum sínum.

Hæstv. forseti. Hér er í hnotskurn lagður grunnur að nýrri sókn í atvinnuþróun og nýsköpun þekkingarsamfélagsins. Þessi sókn byggist fyrst og fremst á innleiðingu nýrrar þekkingar og færni sem eru forsendur fyrir uppbyggingu og endurnýjun atvinnulífsins í stað þeirrar starfsemi sem látið hefur undan síga vegna breyttra ytri aðstæðna. Mikilvægt er að allir landshlutar og allir landsmenn hafi hin sömu og sem jöfnust tækifæri til að taka þátt í þeirri endurnýjun sem færa mun þeim ný og vel launuð störf inn í framtíðina.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að þessu frumvarpi verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.