133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[16:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi um Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem á að sameina úr Byggðastofnun, Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Það sem ég vil ámálga við hæstv. ráðherra er að Byggðastofnun er nú staðsett á Sauðárkróki, með höfuðstöðvar þar. Hvergi er í þessu frumvarpi vikið að því hvað muni verða um Byggðastofnun á Sauðárkróki. Hins vegar er vikið að því hér, eins og hæstv. ráðherra rakti, að horft er til uppbyggingar þekkingarsetra á Ísafirði, Akureyri og á Egilsstöðum, enda hefur styrking landshlutakjarna á þessum stöðum verið eitt af markmiðum byggðaáætlunar stjórnvalda. Áfram er rakið að Háskólasetur Vestfjarða og Þekkingarnet Austurlands myndi nú þegar kjarna vaxtar í þekkingarsetrum á þessum stöðum og að Háskólinn á Akureyri og sú starfsemi sem fer fram í Rannsókna- og nýsköpunarhúsinu og enn frekari vöxtur rannsókna og nýsköpunarstarfsemi í væntanlegum Tæknigarði sé sú umgjörð sem muni mynda kjarna starfseminnar á Norðurlandi.

Mér finnst skjóta nokkuð skökku við. Það var með ærinni fyrirhöfn sem Byggðastofnun var flutt á Sauðárkrók, menn deildu um þá ákvörðun en það var gert og hún hefur starfað þar sem miðstöð þessarar starfsemi. Þó að hér sé verið að flytja nýtt frumvarp verður í sjálfu sér áfram meginþungi þess starfs í hinni nýju stofnun það starf sem var falið Byggðastofnun sem er með höfuðstöðvar á Sauðárkróki. Ég verð bara að lýsa yfir miklum vonbrigðum með það að hér skuli vera svo kveðið að orði að höfuðstöðvar þessarar nýju stofnunar á Norðurlandi skuli verða á (Forseti hringir.) Akureyri, en Sauðárkrókur og (Forseti hringir.) starfsemi Byggðastofnunar þar verði sett út í kuldann að því er virðist.