133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[16:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hæstv. ráðherra þurfi að kveða hér fastar að, því að í textanum stendur varðandi þá starfsemi sem fram fer á Akureyri að meginþungi starfseminnar skuli vera á Norðurlandi.

Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti Akureyri í þessu sambandi en Byggðastofnun var byggð upp á Sauðárkróki. Það er talað um tengsl við skóla, háskóla og háskólasetur. Við erum með háskóla í Skagafirði sem hvergi er minnst á. Mér finnst eðlilegt að það sé tekið fram ef ætlunin er að Byggðastofnun og þessi nýja stofnun verði áfram með þungamiðju sína í Skagafirði, í tengslum við háskólastarf og annað sem þar er, en ekki látið vera undir geðþóttavaldi ráðherra á hverjum tíma.

Hvað varðar landshlutakjarnana þá eru taldir þarna upp þrír landshlutakjarnar. Það er ekki tilviljun. Ég hef ekkert á móti því að Ísafjörður, Akureyri eða Egilsstaðir byggist upp. En það er alveg ljóst hver er andi frumvarpsins, að miða þungamiðju þessarar starfsemi við þessa þrjá staði. Þessir staðir eru alls góðs maklegir og alveg sjálfsagt að byggja þar upp starf en Sauðárkrókur er landshlutakjarni í þessu tilliti. Hann hýsir meira að segja Byggðastofnun núna. Sauðárkrókur er uppbyggður landshlutakjarni á Norðurlandi einmitt fyrir starfsemi hvað þetta varðar. Hvers vegna á þá ekki að segja það?

Eins og hér er lagt upp með er verið að láta þá starfsemi sem nú er á Sauðárkróki vera í vindinum og í staðinn fyrir að taka af öll tvímæli um að Sauðárkrókur sé landshlutakjarni og þar verði höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunar settar, þá er það allt (Forseti hringir.) látið vera í vindinum líka en þó vísað á Akureyri í því sambandi.