133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[17:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það bregður nú svo við að ég er svo sammála tveim síðustu ræðumönnum að ég get mjög stytt mál mitt þess vegna og vísa til þess. Það er gaman af því þegar menn sameinast þvert á hið pólitíska litróf í afstöðu til þessa máls. Hér hefur aðdragandi þess verið ágætlega rakinn og ég þarf ekki að endurtaka það. Það sem virtist vera ágætlega undirbúin og að mörgu leyti vel ígrunduð sameining Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar birtist mönnum allt í einu hér í frumvarpsformi með þeirri undarlegu viðbót að Byggðastofnun hafi eins og fengið far með málinu inn í þingið, því hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra var í bullandi vandræðum með málefni Byggðastofnunar. Satt best að segja eru þau mál búin að vera meira og minna í uppnámi frá því að málaflokkurinn var fluttur úr forsætisráðuneytinu yfir til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og stofnunin flutt norður á Sauðárkrók og miklar deilur upphófust þar í stjórn. Við þekkjum þessa sögu. Það á ekki af henni að ganga, aumingja Byggðastofnun því enn er hún hér eins og eitthvert vandræðagóss inni í þessu frumvarpi sem að öðru leyti hefði sjálfsagt getað orðið ágætissamstaða um.

Það er þó þannig og það kom fram í vinnu iðnaðarnefndar um þetta mál að meira að segja þessi sameining Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins er ekki eins algerlega einboðin og menn kynnu að ætla þegar farið er að skoða það betur vegna þess að starfsemi þeirra tveggja stofnana er þrátt fyrir allt sumpart ólík. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins er í grunninn þjónustustofnun við byggingageirann og í gríðarlega nánu samstarfi og samþætt inn í þá grein og í raun er fátt að vinna með því að breyta því vegna þess að eftir því sem ég fæ best séð og veit er almennt góð sátt og ánægja með hvernig sú stofnun vinnur sem þjónustustofnun, prófunarstofnun og rannsóknastofnun, hagnýtra rannsóknir þá aðallega, fyrir byggingariðnaðinn. Iðntæknistofnun hefur breiðara svið og þar er núverandi nýsköpunarmiðstöð eða Impra eða hvað það nú heitir. Þar er miklu frekar á ferðinni sumpart einhver skyldleiki yfir í verkefni Byggðastofnunar og atvinnuþróunarfélaganna. En þó held ég að sameining RB og Iðntæknistofnunar og staðsetning þeirra í nágrenni við háskólasamfélagið í Vesturbænum hefði haft ýmsa kosti í för með sér. Það er eftir ýmsu að slægjast í þeim efnum. Það getur maður alveg fallist á. En svona fór þetta nú og frumvarpið fékk einhverjar þær hraklegustu viðtökur sem mál af þessu tagi hefur lengi fengið í þinginu. Það er helst reyndar að mál frá sama ráðherra á sama þingi eða svipuðum þingum, auðlindafrumvörpin, hafi verið tekin jafnhressilega í nefið, ef svo má að orði komast, eins og þetta. Þeim mun meiri undrun vekur að málið skuli koma hér lítt breytt inn á þing og fyrir því þurfum við auðvitað einhver rök. Vógu þá svona létt þessar gríðarlega miklu athugasemdir sem gerðar voru við málið og náðu langt inn í raðir ríkisstjórnarliðsins sjálfs og gera enn samanber ræðuflutning hér? Það er ekki einu sinni samstaða um þetta mál á stjórnarheimilinu svo augljóst sem það er. Þá hljóta menn aðeins að staldra við og spyrja sig hvort ekki sé betra að endurskoða þetta eitthvað og velta þessu betur fyrir sér.

Það sem ég held að komi náttúrlega fyrst upp er spurningin um það hvort hyggilegt sé að taka byggðaþáttinn inn í þessa hefðbundnu rannsókna- og þjónustustarfsemi við atvinnuvegina sem Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun eru. Er það að öllu leyti heppilegt? Er ekki byggðaþátturinn, þá meina ég bæði áætlanagerð, stefnumótun, ráðgjöf og skýrslugjöf og svo eftir atvikum umsjón með Byggðasjóði — hvaða heimildir sem hann nú hefur — betur kominn sem sjálfstæður þáttur sem hefur síðan þverfagleg tengsl við málefni, ekki bara þessa hluta þjónustu við tilteknar atvinnugreinar, byggingariðnað og iðnað, heldur allar? Er það ekki í raun þannig að byggðaþátturinn hljóti að þurfa að verða alveg þverfaglegur? Ég hef oft velt því fyrir mér hvort byggðamálin hefðu ekki betur bara farið til félagsmálaráðuneytisins og við hefðum skilgreint þau sem verkefni sem væru svo nátengd málefnum sveitarfélaganna og þess hlutverks sem félagsmálaráðuneytið fer með að það hefði þá alveg eins átt heima þar eða þá að senda þau aftur heim til forsætisráðuneytisins vegna þess að þau verða eðli málsins samkvæmt þannig að vinna þyrfti með öllum ráðuneytum og öllum málaflokkum. Það er örugglega langt í land að við stofnum sjálfstætt byggðamálaráðuneyti. Það er lítil stemmning fyrir því. Menn vilja aðallega fækka ráðuneytum. En auðvitað hefði það verið ein leið eða þá að byggðamálin yrðu hluti af stærri og öðruvísi endurskilgreiningu og endurskipulagningu verkefna í Stjórnarráðinu þar sem til yrði einhvers konar innanríkisráðuneyti eða eitthvað í þeim dúr.

Auðvitað liggja vissir þættir og vissar leiðir saman eins og nýsköpunarhugsunin. En byggðamálin eru bara miklu meira en nýsköpun í atvinnumálum. Því miður hættir mönnum að líta svo á að það er gjarnan hringt í Byggðastofnun þegar allt er hrunið, komið í kaldakol sem er alveg skelfilegur hugsunarháttur. Það má ekki vera þannig að byggðamál séu einhver vandræði, erfiðleikar, áföll og hrun sem séu orðin staðreynd. Byggðastofnun og byggðamál eiga ekki að hugsast eins og eitthvert slökkvilið heldur á þvert á móti að koma í veg fyrir að kvikni nokkrir eldar. Byggðamálin verða að vera hugsuð sem fyrirbyggjandi og uppbyggjandi aðgerðir sem gera það að verkum að fjölbreytt og blómlegt atvinnulíf sé um allt land og undirstöður byggðar og mannlífs í öllu tilliti. Auðvitað eru byggðamál ekkert síður að hlúa að menningu eða afþreyingu eða hverju sem er, samgöngum, að stuðla að góðum samgöngum o.s.frv. Það á ekki bara að vera sú þrönga hugsun að það eina sem skipti máli sé að menn hafi vinnu. Auðvitað er það undirstaða. Það hverfur ekki. En þetta þarf að hugsast í miklu víðtækara samhengi. Mín von hefur verið sú að menn hefðu þroskast það í glímunni við þessi mál að þeir endurskilgreindu og endurreistu aðgerðir á sviði byggðamála á grunni slíkrar breiðrar nálgunar. En þetta er í raun að hluta til leiðin til baka inn í þennan þrönga atvinnunýsköpunarfarveg. Það gætum við sagt að eigi þá við kannski um atvinnuþróunarfélögin sem slík sem starfa skilgreint með það verkefni en ekki stjórnsýslu- og ráðgjafarstofnun og áætlanastofnun á sviði byggðamála. Það er mjög ankannalegt ef hún er á fullri ferð til baka inn í þetta samhengi.

Varðandi skipulagsþáttinn í þessu þá verður líka til hér ákaflega sérkennileg stofnun. Ég hef velt því svolítið fyrir mér hvernig sé háttað svona stjórnsýslufræðum í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu af því að við höfum verið að fá svo skemmtileg frumvörp frá því ráðuneyti stundum að undanförnu. Ég hef spurt stundum þá: Hvernig er með skipuritið? Er það hérna einhvers staðar í fylgiritinu? Það gerði ég bæði þegar auðlindafrumvarpið kom og þetta. Nei, það var ekki til skipurit og þegar betur var að gáð sáu menn eiginlega ekki fyrir sér að það væri hægt að draga það upp því fyrirbærið væri svo kúnstugt í laginu. Hvað er nú þetta hér? Jú, Nýsköpunarmiðstöð Íslands skal það heita. Þetta er deildaskipt. Það er ráðgjafarsvið sem er svona ráðgjafar- og stjórnsýslusvið og er þá að einhverju leyti starfsemi Byggðastofnunar eða hvað það nú er. Það eru Íslenskar tæknirannsóknir og það vitum við í grófum dráttum hvað er. Það er sameining þeirra þátta sem eru hjá RB og Iðntæknistofnun. Þar starfar ráðgjafarnefnd, ekki stjórn heldur ráðgjafarnefnd og hún er átta manna. Staðsetninguna á þessu öllu ákveður ráðherra. Svo kemur Byggðasjóður. Hann er sjóður. Þar starfar fimm manna stjórn. Síðan kemur Tækniþróunarsjóður. Hann er sjóður og þar er sjö manna stjórn, sjö manna. Það er átta manna ráðgjafarnefnd, fimm manna stjórn, sjö manna stjórn. Svo kemur Tryggingarsjóður útflutnings. Það er sjóður. Þar eru aftur fimm menn í stjórn o.s.frv. Þetta er ákaflega sérkennilegt fyrirbæri. Það er sem sagt toppur með forstjóra sem ráðherra skipar. Síðan eru ýmis svið með einhvers konar sviðsstjórum eða sjálfstæðir sjóðir með stjórn. Hvert er þá hlutverk til dæmis forstjórans og stjórnarinnar? Þetta er orðið óskaplega einhvern veginn samsett og flókið og undarlegt fyrirbæri þannig að ég verð að segja alveg eins og er að ég er ekki viss um að menn séu að vinna meira en þeir eru að tapa í þessum efnum. Það skyldi nú ekki fara svo, ef þessi ósköp verða búin til, að það komi tiltölulega fljótt að því að menn vilji fara að gera þarna einhverjar breytingar. Auðvitað verður það. Auðvitað verður þetta með einhverjum hætti síðan rekið saman eða þessu breytt og á endanum sett inn ein stjórn eða engin.

Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið afturför á sínum tíma þegar þingkjörin stjórn yfir Byggðastofnun var slegin af. Það voru skelfileg mistök. Það var upphafið að eyðimerkurgöngu þessa málaflokks að hluta til og hefur sennilega kannski skipt meiru máli en flutningurinn eða vistaskiptin úr forsætisráðuneytinu yfir í iðnaðarráðuneytið. Hver var hugsunin meðal annars á bak við það að hafa þverpólitíska þingkjörna stjórn yfir þessum málaflokki? Það var meðal annars til að reyna að hafa einhverja samstöðu um þessi mál. Það var meðal annars til að reyna að kalla alla til ábyrgðar á þessum málaflokki og að allir kæmu sínum sjónarmiðum að. Þessu hefur öllu verið kastað fyrir róða eins og svo víða annars staðar þar sem menn hafa farið ráðherravæðingarleiðina, að henda út allri lýðræðislegri aðkomu Alþingis svo ekki sé talað um starfsmenn þar sem slíkt átti við og starfsmannalýðræði og þar af leiðir ráðherravæðingin sem felur í sér að ráðherrann handvelur stjórnina og passar náttúrlega dyggilega upp á að hann og hans flokkur og stjórnarliðið sé þar í traustum meiri hluta. Ef menn eru þægir í stjórnarandstöðunni þá fá þeir að tilnefna einn, tvo menn. Ef menn eru óþægir eins og Vinstri grænir voru í þessum byggðamálum þá er þeirra fulltrúa hent út. Þannig virkar nú lýðræðið á þeim bænum. Það er umburðarlyndið og víðsýnið sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra sýndi þegar við lögðumst hart gegn þessum breytingum á yfirstjórn byggðamála á sínum tíma, áttum mann kjörinn í stjórn Byggðastofnunar. Fyrsta verk iðnaðar- og viðskiptaráðherra var að sjálfsögðu að henda honum út. Þannig var nú það.

Svo hlýt ég að síðustu, frú forseti, að segja að mér finnst menn vera hér líka algerlega að tapa sjónar á einu atriði og ekki litlu. Það er viðfangsefninu sjálfu, þ.e. byggðamálunum. Þau bara gleymast í þessu. Við skulum ekki gleyma því við hvað er að glíma í þeim efnum á Íslandi og hvers konar gríðarlegt verkefni það er ef menn ætla að ráðast í það og takast á við það af einhverri alvöru, enn ekki bara busla einhvers staðar í yfirborðinu með tóma sýndarmennsku eins og þetta hefur verið undanfarin ár, að reyna að koma á einhverju jafnvægi í byggðaþróun í landinu þó mjög seint sé þegar við stöndum frammi fyrir því að búsetudreifing á Íslandi er orðin skakkari og samþjöppunin fólksmeiri en í nokkru öðru landi sem við berum okkur saman við. Ekkert ríki í Vestur-Evrópu eða norrænt Vestur-Evrópuríki býr við neitt sambærilega hluti og þykir mönnum þó nóg um flutningana frá norðri til suðurs til dæmis í Skandinavíu. Þykir mönnum nóg um í Skotlandi. Þykir mönnum nóg um í Grænlandi og Færeyjum. En samþjöppunin þar er þó hvergi nærri því jafnmikil og á Íslandi. Um þriðjungur í Færeyjum og á Grænlandi býr í höfuðborginni og innan við það í Noregi og Svíþjóð. Samt er þar mikil umræða um byggðamál og gríðarlega umfangsmiklar aðgerðir til að styðja við bakið á búsetunni til dæmis í Norður-Skandinavíu, miklu víðtækari aðgerðir en hér eru í gangi. Við höfum horft hér upp á meiri röskun og viðvarandi jafnvægisleysi í þessum efnum en aðrar þjóðir hafa látið bjóða sér og er í raun lítið lát á enn þá. Staðreyndin er sú að enn er allt of mikill brestur að verða í byggðinni víða á jaðarsvæðum í landinu og ótrúlega lítið og af litlum metnaði tekist á við þá hluti.

Ég held því fram að það væru einhver heimskulegustu mistök sem við Íslendingar gerðum ef við látum þetta halda svona áfram vegna þess að landið minnkar við hverja byggð sem brestur og við verðum fátækari, sérstaklega af framtíðarmöguleikum. Ég held að fáar ef nokkrar fjárfestingar séu líklegar til að verða eins arðsamar á komandi áratugum og öldum vonandi en þær að reyna að aðstoða fólk og styðja við bakið á þeim sem vilja blása lífi í byggðir sem eiga í vök að verjast. Þó við tækjum ekki nema eina atvinnugrein, mestu vaxtargrein íslensks efnahagslífs undanfarna áratugi, ferðaþjónustuna, þá er augljóst mál að framtíðarmöguleikarnir þar eru gríðarlega tengdir búsetunni. Ferðaþjónustan verður af allt öðru tagi ef ekki er til staðar byggð til að takast á við hana og þróa hana á staðbundnum forsendum í hverju byggðarlagi og hverjum landshluta fyrir sig. Það er auðvitað hægt að senda ferðamenn í rútum eða leiðbeina þeim á bílaleigubílum út í tómar byggðir eftir vegum yfir sumarið en miklu meira gerist ekki nema til staðar sé byggð sem geti boðið upp á þjónustu, afþreyingu, veitt leiðsögn, kynnt og komið á framfæri menningu, siðum og hefðum og arfleifð viðkomandi svæðis o.s.frv. Við stöndum frammi fyrir því Íslendingar að við erum orðin ferðamennskuþjóð „per definition“ af því að hingað koma fleiri ferðamenn en landsmenn eru á ári hverju. Svona upp úr miðjum næsta áratug gætum við átt von á einni milljón ferðamanna til Íslands og að þeir verði þá farnir að dreifast mun meira yfir allt árið en þeir gera núna. En það verður gríðarlegt viðfangsefni að taka á móti þessum fjölda svo vel fari og engin leið að gera það öðruvísi en til stórvandræða horfi nema við getum dreift álaginu um landið og gert nánast og helst hverja einustu byggð virkan þátttakanda í því. Þá er hægt að sjá fyrir sér að við ráðum eitthvað við þetta og án þess að það verði átroðningur og vandræði sem stofna náttúru og umhverfi í hættu og hafa ýmislegt annað óæskilegt í för með sér, of miklar árstíðasveiflur o.s.frv.

Auðvitað er það svo síðan margt fleira sem hægt er að tína til og nota sem rök í þessum efnum. En ég læt nægja að nefna þetta eitt af því að fyrir mér er það alveg nógu stórt. Af hverju skyldum við ekki horfa til hagsmuna þessara stærstu vaxtargreinar íslensks atvinnulífs um árabil og greinar sem er líkleg til verða það áfram? Allt teiknar til að hún verði það áfram nema við eyðileggjum það sjálf. Það má svo sem velta því fyrir sér hvort við séum ekki með tilburði til þess. En það er önnur saga. En það eru flestir sammála um að Ísland eigi alveg gríðarlega möguleika á þessu sviði. Ferðaþjónustan er að mörgu leyti mjög álitleg grein og góð vegna þess að hún dreifir afrakstri sínum víða. Hún felur ekki í sér þörf á mikilli fjárfestingu borið saman við margt annað og hún skilar prýðilegum arði, nettóarði inn í hagkerfið. Það er nefnilega þannig að gamli söngurinn og rógurinn um láglaunastörfin og gjaldþrotin og vesenið og tapið á ferðaþjónustunni er löngu liðin tíð sem betur fer. Það gengur bara prýðilega í verulegum mæli í ferðaþjónustunni. Hún hefur dafnað þannig að tíminn hefur lengst og vetrarferðamennska er í hraðri uppbyggingu víða, ekki bara hér á suðvesturhorninu heldur líka sums staðar úti á landi sem er virkilega ánægjulegt. Það horfir því að mörgu leyti alveg prýðilega í þessari grein og hún borgar ýmsum sínum starfsmönnum alveg ágætislaun.

Það sem er kannski sérstaklega gott við hana er að þar sem vel tekst til þá styrkir ferðaþjónustan kannski meira en flest annað þá atvinnustarfsemi, þá þjónustu, þá innviði sem þurfa hvort eð er að vera til staðar vegna landsmanna sjálfra eins og samgöngurnar og þjónustu, verslun og annað því um líkt. Þess vegna er leitun að þróun sem er í raun hagstæðari fyrir byggðirnar heldur en sú að þar byggist upp ferðaþjónusta, ábatasöm og sterk. Þannig er svo auðvelt að sjá fara saman hagsmuni byggðanna og skynsamlegar aðgerðir stjórnvalda á sviði byggðamála og hef ég þó ekkert nefnt undirstöðuþáttinn sem samgöngurnar eru, en nefni það svona til að hafa gert það.

Ég held satt best að segja að við þurfum að skoða þetta verulega vandlega. Það er ekkert sem er að hlaupa frá okkur í þeim efnum að fara að hrasa að afgreiðslu þessa nú. Annað eins hefði þá gerst eins og að það biði þá bara næsta þings að glíma við þetta verkefni, nýrrar ríkisstjórnar og nýs þingmeirihluta hér. Það stefnir allt í að hann verði býsna breyttur að samsetningu samanber fréttir undanfarna daga og vikur og ég held að við ættum ekkert að reyna að hafa þá vit fyrir þeim sem koma til með að ráða ferðinni á næsta kjörtímabili endilega.