133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[18:23]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni varðandi það að auðvitað á að létta þeim sem eru í nýsköpun leiðina í upphafi. Það þarf að gerast myndarlega og standa við bakið á þeim aðilum sem eru tilbúnir til að leggja á sig að koma af stað nýrri starfsemi í landinu. Það er hægt að gera með hlutum eins og hér voru nefndir.

Hv. þingmaður sagðist ekki tala fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er mjög merkilegt. Hann segir þetta oft í ræðustól, hv. þingmaður. Nú búum við við það að það er ekki bara hann sem hefur talað í dag. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson hélt líka ræðu og sú ræða gekk út á það að hann væri á móti þessu máli. Hann lýsti því alveg prýðilega af hverju hann væri á móti því. Hv. þingmaður Pétur Blöndal lýsti sömu sjónarmiðum að mörgu leyti.

Aðrir hafa ekki talað fyrir Sjálfstæðisflokkinn. En í iðnaðarnefnd í fyrra voru sjálfstæðismenn, t.d. hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, Sigurður Kári Kristjánsson og kannski komu fleiri sjálfstæðismenn þar að. Þeir voru allir á móti þessu máli eins og það var. Ég spyr: Hvar á maður að leita að stefnu Sjálfstæðisflokksins í málinu annars staðar en hjá þeim sem tala fyrir flokkinn? Fyrir Sjálfstæðisflokkinn hafa engir talað sem ekki eru á móti málinu svo ég muni eftir. Ég óska þess að ég verði minntur á það ef svo er. Það væri mjög gott því að við eigum eftir að fjalla um málið í nefndinni. Þá væri gott að hafa þær upplýsingar. Annars fer ég með þær upplýsingar inn í nefndina að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti því.