133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[18:46]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Þetta er fróðlegt svar, herra forseti, að þetta verði viðhorfið í framtíðinni. Ég get ekki betur munað en að einmitt í þessari grein komi fram hjá hæstv. núverandi iðnaðarráðherra og byggðamálaráðherra að byggðastefnan eigi ekki að snúa að því að verja þessar byggðir, heldur er andi ritgerðarinnar sá að byggðastefnan eigi að snúast um Keflavíkurflugvöll, að fólk fari ekki úr landi.

Mér finnst þetta mjög þörf umræða, að Framsóknarflokkurinn komi til dyranna eins og hann er klæddur. Mér sýnist hæstv. iðnaðarráðherra gera það hér með, segja að þetta sé stefna Framsóknarflokksins í framtíðinni, að ekki verði litið á byggð eins og Skagafjörð sem sjálfstæða einingu. (HjÁ: … fara á lestrarnámskeið áður en þú ferð að rýna í þetta.)

Herra forseti. Ég heyri að framsóknarmönnum verður nokkuð órótt við þessa umræðu. En þetta er einmitt stefna Framsóknarflokksins í byggðamálum, þ.e. að grafa undan hinum dreifðu byggðum með því að gera atvinnuréttinn að söluvöru og við sjáum það, því miður, í byggðaþróuninni að Framsóknarflokknum virðist verða nokkuð ágengt.

Honum nægir ekki að gera byggðaréttinn að söluvöru, heldur meinar Framsóknarflokkurinn einnig bændum að nýta eignarlönd sín. Það hefur komið fram að hæstv. byggðamálaráðherra telji það jafnvel eðlilegan fórnarkostnað, og réttlætanlegan til þess að viðhalda kvótakerfinu, að meina bændum að nýta eignarlönd sín, meina þeim að veiða hrognkelsi sem eru innan 115 metra frá stórstraumsfjöruborði við strandjarðir. Það kom fram í umræðu á þingi og væri (Forseti hringir.) fróðlegt að fá þessi viðbrögð skýrar fram.