133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

frumvörp um eignarhald orkufyrirtækja.

[12:02]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég óska eftir því að taka til máls undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins í framhaldi af frétt sem ég heyrði í Ríkisútvarpinu í gær klukkan sex. Þar var sagt frá því að hæstv. iðnaðarráðherra Jón Sigurðsson hefði kynnt í ríkisstjórn tvö frumvörp um eignarhald orkufyrirtækja, annars vegar um að eignarhaldið færðist frá iðnaðarráðherra til fjármálaráðherra sem er gott mál og er samkeppnisvænt í því umhverfi sem þessi fyrirtæki starfa. En hitt frumvarpið snýr að því að samhliða frumvarpinu um breytingar á Landsvirkjun flytur hæstv. iðnaðarráðherra annað frumvarp sem felur meðal annars í sér að Orkubú Vestfjarða og Rarik hf. sem bæði eru að öllu leyti í eigu ríkisins verði lögð til Landsvirkjunar sem viðbótareigendaframlag ríkissjóðs.

Ég kveð mér hljóðs í framhaldi af því að þann 1. nóvember, fyrir viku síðan, urðu umræður um kaup ríkisins á hlut borgarinnar og Akureyrar í Landsvirkjun og þar var hæstv. iðnaðarráðherra spurður að því beint af þeim sem hér stendur hvort það kæmi til greina eða hvort það væri ætlan hæstv. ráðherra að renna Rarik og Orkubúi Vestfjarða inn í Landsvirkjun eftir að ríkið væri orðið einn eigandi og stækka þar með Landsvirkjun enn frekar. Hæstv. ráðherra svaraði í seinni ræðu sinni og sagði, með leyfi forseta:

„Ekki liggja fyrir á þessu stigi neinar niðurstöður um frekari skipulagsbreytingar sem snerta Rarik eða Orkubú Vestfjarða.“

Ég taldi, frú forseti, að með þessu væri hæstv. iðnaðarráðherra að svara beint spurningu minni og væri að segja okkur hér að ekki stæði til að renna Rarik eða Orkubúi Vestfjarða inn í Landsvirkjun. Það er ekki hægt að skilja þessi orð hæstv. ráðherra öðruvísi.

Viku seinna kynnir hæstv. ráðherra í ríkisstjórn það frumvarp sem ég talaði um áðan um að þessi fyrirtæki tvö renni til Landsvirkjunar væntanlega til að styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar vegna þess að lánskjör séu að versna. En ég verð að spyrja hæstv. ráðherra: Er þessi ákvörðun um að renna þessum fyrirtækjum inn í Landsvirkjun tekin í flýti eða hasti eða var hæstv. ráðherra einfaldlega að segja okkur ósatt hér fyrir viku?