133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

frumvörp um eignarhald orkufyrirtækja.

[12:14]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar ég kom upp um störf þingsins vegna kaupanna á Landsvirkjun sagði hæstv. viðskiptaráðherra að ekki væri nein niðurstaða um að sameina þau fyrirtæki sem hér um ræðir. Nú upplýsir hann okkur um að Rafmagnsveiturnar og Orkubúið verði dótturfélag Landsvirkjunar í 100% eigu hennar. Hygg ég að viðskiptaráðherra sé þá eini maðurinn á Íslandi sem skilur það ekki sem sameiningu fyrirtækja þegar eitt fyrirtæki eignast annað fyrirtæki að fullu. Við hljótum í þinginu að líta einfaldlega á þetta sem byrjendamistök hjá hæstv. iðnaðarráðherra. Hann hlýtur auðvitað að biðjast velvirðingar á þessum leiða misskilningi. En við hljótum að spyrja hann á hvaða vegferð ríkisvaldið sé hvað samkeppnissjónarmið varðar þegar það stendur í þessu, þ.e. að búa til þennan ríkisrisa á raforkumarkaðnum. Þegar okkur berast fréttir af því að ríkið sé orðið langstærsti aðilinn í hugbúnaðargerð, þegar við fréttum að Íslandspóstur sé að kaupa sig inn í prentiðnaðinn þá hljótum við að spyrja hvort hér eigi að búa til drottnandi einokunarrisa á raforkumarkaðnum eða hvort ráðherrann telji nauðsynlegt að hafa eitthvert jafnræði á þessum markaði þar sem menn sækja hver í kapp við annan um virkjunarleyfi.

Við hljótum líka að spyrja hvort fjárhagur Landsvirkjunar sé svo erfiður að nauðsynlegt sé að sameina þessi tvö fyrirtæki inn í Landsvirkjun þannig að Landsvirkjun geti staðið undir þeim lántökum sem hún þarf að ráðast í eða hvað knýi fram þessa sameiningu sem helst mátti skilja á hæstv. ráðherra í síðustu viku að væri alls ekki á dagskránni. Við hljótum að spyrja hvort jafnlítið sé að marka yfirlýsingu viðskiptaráðherra um (Forseti hringir.) að ekki standi til að einkavæða þennan ríkiseinokunarrisa eins og var lítið (Forseti hringir.) að marka orð hans um sameiningu þessara fyrirtækja.