133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

frumvörp um eignarhald orkufyrirtækja.

[12:19]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Maður veltir fyrir sér hversu langt hæstv. iðnaðarráðherra ætli að ganga í orðhengilshætti í þinginu. Hversu langt á að ganga í orðhengilshætti til að komast hjá því að svara beinum spurningum með beinum svörum?

Það var með vilja gert í umræðunni fyrir viku að ég notaði ekki orðið sameining. Það var með vilja gert að ég spurði hvort það kæmi til greina eða hvort það væri ætlun ráðherrans að renna Rarik og Orkubúi Vestfjarða inn í Landsvirkjun. Hæstv. ráðherra svaraði því til að ekki stæðu til neinar skipulagsbreytingar á þessum fyrirtækjum.

Ég spyr aftur hæstv. ráðherra: Var hann vísvitandi að komast hjá því að svara beinni spurningu með beinu svari vegna þess að það passaði ekki fyrir formann Framsóknarflokksins á þeim tíma að segja satt í þinginu? Eða: Hvað gekk hæstv. ráðherra til þegar hann svaraði með þessum hætti?

Ætla menn virkilega að fara að hártoga það hér í umræðunni hvað sé sameining fyrirtækja og hvað sé ekki sameining fyrirtækja? Þegar tvö fyrirtæki eru lögð alfarið inn í fyrirtækið Landsvirkjun — bætast þar við efnahaginn, Landsvirkjun hefur algjörlega yfir þessum tveimur fyrirtækjum að segja og það er gefið til kynna í viðræðum við fréttamenn að þetta muni hafa hagræðingu og samlegðaráhrif í för með sér í rekstri fyrirtækjanna allra — ætlar hæstv. ráðherra virkilega að koma hér til okkar á Alþingi og segja okkur að ekki sé verið að renna Rarik og Orkubúi Vestfjarða inn í Landsvirkjun?

Hvernig í ósköpunum ætlar svo hæstv. viðskiptaráðherra að samrýma þennan gjörning samkeppnissjónarmiðum? Hvernig í ósköpunum ætlar hæstv. viðskiptaráðherra að útskýra það að með því að renna þessu saman og reka þetta saman, eins og á að gera samkvæmt fréttatilkynningu, verði hagsmunum samkeppni betur þjónað? Ja, framsóknarmennskan er oft skrýtin, frú forseti.