133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

frumvörp um eignarhald orkufyrirtækja.

[12:21]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér í þessa umræðu um frammistöðu ríkisstjórnarinnar í þessum raforkumálum. Ég tel að þessar æfingar hæstv. ríkisstjórnar séu dæmigerðar fyrir geðþóttavinnubrögðin, baktjaldaákvarðanirnar sem hafa einkennt meðferð þessara mála í langan tíma.

Má ég minna á það að þegar sveitarfélögin á Vestfjörðum voru neydd til að láta Orkubúið af hendi voru þeim gefin fyrirheit um að Orkubúið yrði rekið áfram sem sjálfstæð eining, að umsvif þess mundu ekki minnka í fjórðungnum og að það gæti áfram sem sjálfstætt fyrirtæki beitt afli sínu á því svæði þótt eignarhaldið breyttist frá því að vera sveitarfélaganna yfir til ríkisins.

Einhvern tíma var fyrrverandi iðnaðarráðherra með yfirlýsingar um að flytja Rarik norður til Akureyrar. Hann lofaði Akureyringum höfuðstöðvum Rariks og lagði málin þannig upp að til greina kæmi að endurskipuleggja hina opinberu eign í orkumálum þannig að til gæti orðið landshluta- eða svæðisfyrirtæki. Hvar eru nú þessi loforð og fyrirheit gagnvart Vestfirðingum eða Norðlendingum? Standast ekki einu sinni orð ráðherrans hér frá því fyrir viku síðan eða hvað það nú er? Auðvitað hefur legið í loftinu að það ætti að lappa upp á fjárhag Landsvirkjunar með því að láta Orkubúið og Rarik með 10–12 milljarða í eigin fé renna þangað inn og þann aðgang að notendum, viðskiptavinum, sem það felur í sér til þess að rétta af Landsvirkjun eins og henni er nú komið. Hún minnir helst á gamlan síldarbát, drekkhlaðinn á nösunum með brimgarðinn fram undan. Búið er að hlaða hana þannig af skuldum vegna þeirra fjárfestinga sem hún hefur staðið í.

Kostulegast er þetta þó auðvitað í ljósi þess að ríkisstjórnin barði hér í gegn fullgildingu á orkutilskipun Evrópusambandsins sem gengur út á það að búa til virkan samkeppnismarkað í raforkumálum. Er það þá aðferðin að safna þessu öllu saman í eina einingu, framleiðslu, dreifingu og sölu á raforku, þannig að til verði algerlega (Forseti hringir.) markaðsráðandi risi? Þetta eru undarleg vinnubrögð, frú forseti.