133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

varðveisla og miðlun 20. aldar minja.

227. mál
[12:42]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Fyrr á þessu ári fól ég þjóðminjaverði að gera mér grein fyrir varðveislu menningarminja um veru varnarliðsins á Miðnesheiði. Matið var unnið m.a. samhliða störfum svonefndrar flugminjanefndar sem ég skipaði í maí sl. til að skoða kosti þess að stofna og starfrækja safn um flugsögu og flugminjar á Íslandi og mun hún skila greinargerð væntanlega innan skamms. Með brotthvarfi varnarliðsins lýkur eins og við vitum meira en 50 ára þætti í sögu landsins sem mikilvægt er að mínu mati að halda til haga og rannsaka.

Fjöldi Íslendinga vann í herstöðinni við mjög mismunandi störf og gætti áhrifa hennar því langt utan varnarsvæðisins, m.a. á fjölskyldur og vini starfsmanna auk jaðaráhrifa. Nefna má menningarleg áhrif af ýmsu tagi, t.d. vegna hermannasjónvarps og útvarps sem stór hluti af íslensku þjóðinni hafði m.a. aðgang að. Þá er mannlífið í herstöðinni ekki síður áhugavert og á það jafnt við um innlenda starfsmenn sem bandaríska hermenn. Ýmsar minjar kunna einnig að vera á varnarsvæðinu, fornleifar, hús og önnur mannvirki sem hafa hugsanlegt menningarsögulegt gildi eins og hv. þingmaður kom í inn á. Ganga þarf úr skugga um þetta og gera viðeigandi ráðstafanir.

Þegar hafa verið gerðar nokkrar ráðstafanir til að varðveita sögu varnarliðsins. Auk þess stefnumótandi starfs sem flugminjanefndin er að vinna má t.d. nefna að félag um flug- og sögusetur í Reykjanesbæ hefur safnað gripum frá varnarliðinu. Söfnunin er komin á það stig að félagið er farið að svipast um eftir húsnæði og hefur gamalt flugskýli á herstöðvarsvæðinu m.a. verið nefnt í því sambandi. Það er einnig verið að safna saman þeim varnarliðsminjum sem Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi varnarliðsins, hefur safnað í gegnum tíðina. Verið er að kanna hvort gripir og ljósmyndir í eigu ýmissa einkaaðila muni síðan geta runnið til flugminjasafnsins.

Utanríkisráðuneytið hefur átt í samskiptum við fornleifanefnd ríkisins um að stofnunin komi að ákvörðunum varðandi skráningu minja frá veru varnarliðsins og mat á því hvaða jarðföstu minjar úr seinni heimsstyrjöldinni og frá kaldastríðsárunum beri að varðveita. Utanríkisráðuneytið hefur einnig afhent fornleifavernd ríkisins gögn varnarliðsins um fornminjar á svæðinu. Málefni fornleifa á hersvæðinu falla ekki undir samningana við Bandaríkjamenn og hefur Ísland því að fullu tekið við þeim svæðum sem um ræðir. Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins tryggði í samráðsferli með varnarliðinu að teknir voru saman munir og gögn varnarliðsins sem kynnu að hafa sögulegt gildi fyrir íslenskt samfélag. Þeim munum var fyrir komið á varnarsvæðinu og unnið er að framtíðarráðstöfun þeirra í samráði við flug- og sögusetrið. Einnig er unnið að því að tryggja að Ísland fengi Phantom orrustuþotu til varðveislu og verður samningur um það undirritaður á næstunni. Vélin er sýningargripur sem hefur staðið úti um nokkur ár og er aðeins skelin eða ytra byrðið eftir og er vel við haldið. Greinargerð þjóðminjavarðar um varðveislu minja um veru varnarliðsins er nú til nánari skoðunar í menntamálaráðuneytinu.

Varðandi annan hluta fyrirspurnar hv. þingmanns varðandi stefnu og miðlun 20. aldar minja hefur verið unnin stefnumótun að verndun 20. aldar minja bæði á sviði byggingarlistar og á sviði fornleifaverndar. Þjóðminjasafn Íslands tekur virkan þátt í samstarfi safna í skráningu nútímaminja bæði innan lands og í samstarfi við erlend söfn. Húsafriðunarnefnd hefur skoðað sérstaklega steinsteypt hús reist á árunum 1900–1940 með tilliti til friðunar og hafa nokkur góð dæmi um íslenska byggingarlist 20. aldar og iðnminjar þegar verið friðuð, t.d. Sundhöll Reykjavíkur, einbýlishús teiknað af Sigvalda Thordarson við Ægisíðu, Rjómabúið á Baugsstöðum og fleira má nefna eins og Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg. Áfram er unnið að því að meta 20. aldar byggingarlist með tilliti til hugsanlegrar friðunar.

Síðustu tvö ár hefur verið unnið að stefnumörkun stjórnvalda á sviði fornleifaverndar á Íslandi og eru tillögur fornleifaverndar ríkisins um stefnumótunina nú til skoðunar hjá okkur í ráðuneytinu. Eitt af þeim markmiðum sem lagt er til að stefnt skuli að er að varðveita til framtíðar úrval minja sem endurspegla breiddina í samfélaginu á hverjum tíma og sýna þróun þess frá upphafi byggðar ásamt því að túlka þau samfélagslegu og menningarlegu gildi sem almenn samstaða er um að séu mikilvæg. Fornleifavernd ríkisins hefur unnið samkvæmt þessu markmiði sem segir í tillögunum, þ.e. með leyfi forseta:

„Minjar yngri en 100 ára geta haft mikla þýðingu fyrir menningarsögu þjóðarinnar rétt eins og hinar eldri, samanber t.d. iðn- og stríðsminjar 20. aldarinnar og ýmis samgöngumannvirki.“

Tvær friðlýsingar hafa verið gerðar frá því að stofnunin tók til starfa 2001. 2002 friðlýsti fornleifaverndin að ósk Landhelgisgæslunnar flugvél sem hrapaði í Skerjafirði í seinni heimsstyrjöldinni og 16. september sl. var flakinu af franska rannsóknarskipinu Pourquoi-Pas? friðlýst að beiðni franska sendiráðsins, aðstandenda áhafnarinnar og Byggðasafns Borgarfjarðar. Í báðum þessum tilvikum þótti ljóst að minjarnar væru einstakar og stór þáttur í seinni tíma sögu þjóðarinnar, auk þess sem það þótti að sjálfsögðu nauðsynlegt að vernda þessar minjar fyrir ágangi. Hvað miðlun 20. aldar minja varðar má m.a. benda á nýja og glæsilega sýningu í Þjóðminjasafninu.