133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

menningarsamningar.

134. mál
[12:54]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Reykjanesbær leitaði eftir því í lok árs 2001 að skipuð yrði nefnd fulltrúa menntamálaráðuneytis og Reykjanesbæjar um forsendur fyrir gerð menningarsamnings við bæjarfélagið. Ráðuneytið svaraði málaleitaninni jákvætt en áréttaði um leið í svari sínu að vilji til að ganga til samninga af þessu tagi byggðist á því að um samning við fleiri en eitt sveitarfélag í sama landshluta væri að ræða.

Á þeirri forsendu hvatti ráðuneytið til viðræðna fulltrúa sveitarfélaga á Reykjanesi um að kanna kosti þess að ganga sameiginlega til samninga um menningarsamstarf við ráðuneytið. Frá þeim tíma hefur raunar lítið gerst nema það að ráðuneytinu er kunnugt um ályktanir Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um áhuga þess á gerð menningarsamnings.

Formlegt erindi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um slíkt samstarf hefur reyndar ekki borist ráðuneytinu né er ráðuneytinu kunnugt um sameiginlega stefnu sveitarfélaganna í þessum málaflokki sem er forsenda þess að ríkið gangi til samninga. Enda hefur komið í ljós að forsenda samninga ríkisins og samstarfs við til að mynda Austurland er mjög góð samvinna og gott samstarf meðal sveitarfélaganna á því svæði sem hefur leitt til gifturíkra niðurstaðna. Það má öllum vera ljós sá vilji minn að menningarsamningar nái til sem flestra landsvæða og þá eru Suðurnesin að sjálfsögðu ekki undanskilin.

Ég vil hins vegar stuðla að því að Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum nái samkomulagi um einn slíkan samning við allt svæðið. Það er þá rétt að benda á að við erum ekki alveg bundin við kjördæmamörkin í þessu samhengi. Við sjáum t.d. að Siglufjörður sækist eftir því að vera inni í menningarsamningi gerðum við Norðurland vestra. Menningarsamningur Austurlands nær alveg til Hala í Suðursveit þannig að við brjótum svolítið upp kjördæmamörkin. Ég tel mikilvægt að samningur við Suðurland og Suðurnes verði einn og hinn sami og taki til þess svæðis.

Ég vil einnig ítreka það sem ég hef áður sagt í þingsal að ég tel að menningarsamningar af þessu tagi séu byggðarlögunum í landinu mjög mikilvægir í öllu tilliti. Það kemur best í ljós við lestur m.a. metnaðarfullrar stefnumótunar sveitarfélaganna í menningarmálum. Þessir samningar eru líka mikilvægir fyrir stjórnvöld og sveitarstjórnir þar sem ný tækifæri til listsköpunar gefa einnig landsmönnum tækifæri til að njóta fjölbreytilegrar menningar um allt land.

Ég er einnig sannfærð um að menningarmál muni í auknum mæli hafa mikla þýðingu varðandi atvinnusköpun í landinu. Til þess þurfum við m.a. stuðning af hálfu stjórnvalda. Það hefur hins vegar verið leitt í ljós við það góða samstarf sem við höfum átt við Austurland að annar samningurinn var nokkuð annars eðlis en sá fyrsti. Í hinum öðrum samningi var undirstrikuð meiri ábyrgð sveitarfélaganna fyrir austan af því að þau sáu hag sinn mjög í því að viðhalda slíkum samningi og reyna að þróa hann og efla.

Við þurfum að hafa ýmis atriði í huga þegar við tökum þessar ákvarðanir, m.a. út frá byggðasjónarmiðum. Við þurfum að huga að möguleikum íbúa til að sækja menningarviðburði innan héraðs og utan og einnig að því hvaða möguleika þeir hafa til að vera þátttakendur í menningarstarfinu á sínu svæði.

Varðandi annan hluta fyrirspurnarinnar vil ég geta þess að þegar allar forsendur liggja fyrir, m.a. stefnumótun sveitarfélaganna í menningarmálum, framlög ríkis og sveitarfélaganna til samningsins og samkomulags sveitarfélaganna um samstarfið sín á milli, þurfa sjálfar samningaviðræðurnar alls ekki að taka langan tíma. Það er reynsla okkar. Iðulega ganga þær hratt og vel fyrir sig.

Ég stefni alveg hreint og klárt að því að klára flesta, ef ekki alla, menningarsamningana sem munu þá ná til allra landsvæða utan höfuðborgarsvæðisins í kringum áramót. Er mestur hluti vinnu okkar á menningarskrifstofunni farinn í gerð menningarsamninganna. Við eigum síðan eftir að sjá hvernig það er. Það eru mismunandi áherslur á milli svæða. Það er ríkur vilji af okkar hálfu til að klára þetta, ekki síst fyrir þær sakir að við erum búin að tryggja núna fjármagn, 120 millj. eins og kemur fram í fjáraukalögum, til að fara í þessa samninga. Þær 120 millj. eru af minni hálfu eyrnamerktar í gerð menningarsamninga, þ.e. við Norðurland vestra, Vestfirði og við Suðurland og Eyþing, þ.e. þau fjögur svæði sem eftir eru við gerð menningarsamninga.

Það eru í gildi þrír menningarsamningar: við Akureyri, um þátttöku ríkisins í menningarlegri atvinnustarfsemi, við Austfirðinga um menningarmál og við Vesturland sem tók gildi um síðustu áramót. Framlög til þessara samninga samkvæmt fjárlögum 2006 nema samtals 152 millj. kr. og eru þessir samningar þá utan svonefnds Akureyrarsamnings sem er samstarfsverkefni menntamálaráðuneytisins og samgönguráðuneytis.