133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

menningarsamningar.

134. mál
[13:03]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Fyrir það fyrsta vil ég segja: Nei, það er ekki hægt að taka töluna og deila í með fjórum. Ef svo væri mundu menn ekki skilja eðli og upphaf menningarsamningsins sem er frumkvöðullinn að þessum menningarsamningum öllum, þ.e. menningarsamningur við Austurland. Þar voru teknar fjárhæðir sem ráðuneytið hafði þegar sett í menningarstarfsemi á Austurlandi, þær settar í pott og síðan bætt við.

Það er mjög misjafnt hvernig þessu er háttað eftir landshlutum. Sumir staðir fá meira úthlutað í menningarmálefni en aðrir minna. Við munum taka tillit til þess þegar fram í sækir. Hér er um samningsatriði að ræða varðandi svæðin og við tökum tillit til þeirrar menningarstarfsemi sem fyrir er og hvað er hægt er að gera þar þannig að sum svæði munu hugsanlega fá meira og önnur minna.

Við munum taka tillit til íbúafjölda og það eru margir þættir sem munu spila þarna inn í því. Við verðum að taka tillit til hvers svæðis fyrir sig. Þetta eru mjög mismunandi svæði eins og hv. þingmenn af landsbyggðinni þekkja.

Ég leyni því ekki að ég reyndi að fá einn samning við Vesturland, Vestfirði og Norðurland vestra. Sérstaklega hefði ég kosið að sjá Norðurland vestra og Vestfirði fá einn samning. Ég reyndi það. En það er um leið svarið við þeirri spurningu hv. þingmanns, um hvort ég muni hlusta á óskir sveitarfélaganna. Að sjálfsögðu mun ég hlusta á óskirnar. En ég tel, eftir að hafa farið yfir Suðurlandið sem ég þekki býsna vel — ég er ekki að tala um þetta eftir kjördæmamörkum — að það svæði sýni þann styrkleika að koma fram og setja fram einn samning. Ég held að það muni frekar styrkja menningarstarfið, tengja þessa landshluta betur saman með einum menningarsamningi. Þar yrði örugglega meira samstarf á milli sveitarfélaganna sem mun, eins og gerðist á Austurlandi, leiða til farsælla menningarstarfs og blómlegra en nú er og hefur verið.