133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

nám á framhaldsskólastigi á suðursvæði Vestfjarða.

199. mál
[13:06]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Fyrirspurnin sem ég legg fyrir hæstv. ráðherra var lögð fram í upphafi þings og varðar framhaldsskólanám á sunnanverðum Vestfjörðum, í Vesturbyggð og í Tálknafjarðarhreppi. Þá var þetta mál aðalkrafa íbúanna á þessu svæði og er reyndar enn. Síðan hefur málið komið til meðferðar og hæstv. menntamálaráðherra tjáð sig opinberlega um að það mál njóti stuðnings ríkisstjórnarinnar. Ég vil engu að síður víkja að þessu máli, sem er gríðarlega mikilvægt.

Ég vil minnast á það í upphafi, frú forseti, að eitt fyrsta þingmál sem ég flutti, ásamt öðrum, þegar ég kom á þing 1999 var tillaga um samfellt nám til 18 ára aldurs í heimabyggð. Það var þingsályktunartillaga um þá stefnumörkun að það yrði skilyrði að nám væri skipulagt með þeim hætti að fólk innan sjálfræðisaldurs alls staðar á landinu gæti stundað nám daglega frá heimili sínu. Það er jú hluti af lífskjörum fólks, að geta verið samvistum við börn sín og veitt þeim þann stuðning sem þarf, a.m.k. til 18 ára aldurs. Auk þess er þetta fjárhagslegt mál og gríðarlegt samfélagsmál.

Þetta mál hlaut dræmar undirtektir þá en þessi stefnumörkun komst þó inn í byggðaáætlun árið 2002, að það skyldi vera markmið að fólk gæti sótt nám heiman að frá sér til 18 ára aldurs. Það væri stefnan. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt áherslu á að styðja við fámenna grunnskóla í dreifbýlinu þótt sumum þyki fjárhagslega erfitt að standa að rekstri þeirra.

Við höfum nú fengið framhaldsskóla á Snæfellsnesi, sem var baráttumál. Í bígerð er framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð. En bæði íbúar Vesturbyggðar og Hólmavíkur, eins og ég minntist á í ræðu minni árið 1999, ættu að finna lausn á að fólk á því svæði geti sótt nám að heiman til 18 ára aldurs.

Það er ánægjulegt að þetta mál, sem íbúar á svæðinu hafa gert að forgangsmáli síðustu missiri, um að byggja þar upp nám, a.m.k. til 18 ára aldurs, fái jákvæðar undirtektir. Aðrir íbúar gætu einnig sótt það yrði það að raunveruleika. Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra hvort það sé ekki öruggt að svo verði og að tryggt verði fjármagn til að þetta mál komist (Forseti hringir.) að fullu í höfn á næsta skólaári.