133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

nám á framhaldsskólastigi á suðursvæði Vestfjarða.

199. mál
[13:09]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er rétt sem hefur komið fram, að heimamenn á sunnanverðum Vestfjörðum hafa undanfarið skoðað möguleika á að koma upp framhaldsnámi fyrir nemendur á svæðinu. Þeir komu fyrir skömmu á fund minn í ráðuneytið og lögðu fram afar vel unna skýrslu máli sínu til stuðnings.

Verkefnið hefur verið vel undirbúið af heimamönnum. Það skiptir líka miklu máli, varðandi uppbyggingu framhaldsnáms víðs vegar um landið, að þeir náðu góðri samstöðu um verkefnið á svæðinu. Þarna er um eðlilegt framhald að ræða á svokölluðu dreifmenntaverkefni sem starfrækt hefur verið á svæðinu síðastliðin ár með mjög góðum árangri. Ég fór sjálf í vor og kynnti mér dreifmenntaverkefnið, sem er athyglisvert fyrir margra hluta sakir. En utanumhald í því verkefni er allt til fyrirmyndar sem hefur leitt til þess hægt er að taka verkefnið lengra.

Niðurstaða skýrslunnar sem mér var afhent er ljós. Þar segir að stefna skuli að því að bjóða upp á nám í heimabyggð fyrir nemendur undir sjálfræðisaldri, þ.e. fyrir 16 og 17 ára. Samstaða er um það hjá sveitarfélögunum að kennsla fari fram á Patreksfirði. Þar er húsnæði þegar til staðar. Helstu rökin sem koma fram í skýrslunni eru að erfitt sé að senda börn sem ekki hafa náð sjálfræðisaldri frá heimilum sínum í skóla, oft í öðrum landshlutum. Kostnaður heimilanna við að halda unglingi eða unglingum í skóla fjarri heimabyggð er einnig mjög mikill. Hann skiptir oft á tíðum sköpum fyrir margar fjölskyldur.

Greiðara aðgengi að menntun skiptir miklu máli fyrir einstaklingana og styrkir byggðina sem á undir högg að sækja vegna brottflutnings fólks. Erfiðar samgöngur við Ísafjörð — eins og við þekkjum eru samgöngur við Ísafjörð mjög erfiðar — gera það að verkum að erfitt er að sækja hinn eiginlega framhaldsskóla svæðisins, þ.e. Menntaskóla Ísafjarðar. Það sama á við um Akureyri og höfuðborgarsvæðið þangað sem ungmenni af suðurhluta Vestfjarða hafa gjarnan leitað til náms.

Eins og fram hefur komið hefur verið ákveðið að hefja tilraunaverkefni um rekstur framhaldsskóladeildar fyrir Tálknafjarðarhrepp og Vesturbyggð. Hún verður staðsett á Patreksfirði. Þar verður boðið upp á nám fyrir nemendur á fyrsta og öðru ári framhaldsskóla. Einnig mun eldri einstaklingum sem ekki hafa stundað nám í framhaldsskóla boðið að setjast í deildina. Faglegur rekstur deildarinnar mun verða á ábyrgð Fjölbrautaskóla Snæfellinga en þar hefur á undanförnum þremur árum farið fram tilraunastarf í blöndu af staðbundnu námi og dreifnámi. Mun sú reynsla koma að góðu gagni við rekstur framhaldsdeildarinnar á Patreksfirði. Við sjáum, þegar meta skal hversu margir muni hugsanlega sækja nám í þessari framhaldsdeild á Patreksfirði, sem er kannski jákvæð afleiðing af þessari ákvörðun, að fleiri eldri nemendur munu sækja framhaldsskólanám eins og gerst hefur á norðanverðu Snæfellsnesi í gegnum Fjölbrautaskóla Snæfellinga.

Á síðustu árum hefir verið lögð áhersla á að færa menntun í auknum mæli heim í byggðirnar og í því sambandi má nefna uppbyggingu háhraðanets sem tengir saman skóla og símenntunarmiðstöðvar og stóraukna fjarkennslu í því sambandi.

Það er ljóst, frú forseti, að framhaldsskóladeildin á Patreksfirði er spennandi verkefni sem margir munu fylgjast vel með. Takist vel til getur hún orðið fyrirmynd svipaðra deilda víða um landið og þar með aukið aðgengi fólks í hinum dreifðu byggðum að framhaldsskólamenntun. Ríkisstjórnin mun fyrir sitt leyti tryggja í gegnum fjárframlög í gegnum þingið að þessi starfsemi fái það brautargengi sem hún þarf sem mun verða mikil hvatning fyrir þennan hluta Vestfjarða.

Af tilraun sem gerð var á sínum tíma í gegnum samstarfsverkefnið við Ísafjörð má sjá að þeir eru líklegri til þess að vera áfram á svæðinu sem fá tækifæri til að stunda framhaldsnám í heimabyggð. Með því stuðlum við að því sem ég, sem menntamálaráðherra, er afar ánægð með, þ.e. að fá fleira fólk inn í skólakerfið og því að fleiri ljúki menntun.