133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

nám á framhaldsskólastigi á suðursvæði Vestfjarða.

199. mál
[13:15]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Fyrir rúmum 30 árum hófst mikil uppbygging á framhaldsskólum víða um landið. Er óhætt að segja í ljósi þessarar 30 ára reynslu að það hafi gefist vel. Þar sem áður fóru innan við 10% nemenda á tilteknum svæðum í framhaldsskóla fara nú um og yfir 90% í framhaldsskóla. Þetta hefur orðið til þess að byggðir á þessum stöðum hafa styrkst í sessi og fólk haldist heima.

Það má því segja að nú, 30 árum síðar, sé að koma upp sambærileg krafa hjá minni stöðum. Þeim stöðum sem ekki hafa framhaldsskóla í dag m.a. vegna fámennis. Það er auðvitað krafa samtímans og allra landsmanna að geta átt greiðan aðgang að framhaldsskóla því það er, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, dýrt að senda börnin frá sér ung til fjarlægari staða í framhaldsnám.

Þess vegna ber að fagna þessari merku tilraun sem verið er að gera á Patreksfirði til að þjóna sunnanverðum Vestfjörðum og jafnvel Dölunum. Ég held að við hljótum að fylgjast spennt með þeirri tilraun, þetta er skemmtilegt módel sem verið er að reyna þar, en að sjálfsögðu þurfum við að fylgja því eftir með fjármagni.