133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

nám á framhaldsskólastigi á suðursvæði Vestfjarða.

199. mál
[13:18]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er töluvert annar tónn í þingsölum nú gagnvart því að efla nám á hinum minni stöðum hvað framhaldsnám varðar en var hér fyrir 5–6 árum. (Gripið fram í: Þá var ég ekki á þingi.) Þá flutti ég mál hér ítrekað og það var með mikilli hörku sem tókst að knýja á um framhaldsskólann á Snæfellsnesi, bæði með stuðningi og kröfu heimafólks og einnig á Alþingi um að knýja það mál áfram.

Þegar ég flutti þessa tillögu 1999 um að þetta skyldi vera stefnumörkun, með nákvæmlega sömu rökum og hæstv. ráðherra rakti áðan varðandi fjölskyldulíf, heimilislíf, mannréttindi, kostnað og fleira, þá hlaut það ekki undirtektir eins og núna. Ég vona að þetta sé boðberi góðra tíma og fagna því að hæstv. núverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, skuli taka málið með svo öflugum hætti upp sína arma og að þetta geti orðið vísir að því að framhaldsskólar verði byggðir upp víðar um land.

Eitt ráð vil ég þó gefa og það er að ég tel mikilvægt að framhaldsnám af þessu tagi sé rekið á ábyrgð heimaaðila þannig að það sé hluti af skólanámi sem þeir bera ábyrgð á. Við höfum áður reynt að reka framhaldsdeildir sem hluta af rekstri eða faglegu starfi annars fjarlægs skóla og það hefur ekki gefist vel.

Það er hægt að njóta faglegs stuðnings skóla sem geta lagt sitt til málanna, hvort heldur það eru Menntaskólinn á Ísafirði, skólarnir á (Forseti hringir.) Snæfellsnesi eða Akureyri. En mikilvægt er að heimamenn (Forseti hringir.) axli og beri ábyrgðina á framkvæmdinni með ríkinu og góðum ráðherra.