133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framboð verk- og tæknináms.

218. mál
[13:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sæunn Stefánsdóttir) (F):

Frú forseti. Fleiri nemendur hefja bóknám eftir grunnskóla en verknám, en um 30% grunnskólanemenda fara beint í iðnnám meðan 70% fara beint í bóknám. Hins vegar eru 40% útskriftarnemenda sem útskrifast úr verknámi þannig að af því verðum við að draga þá ályktun að einhvers staðar á leiðinni verði þessi tilfærsla. Ég held því að við þurfum að efla náms- og starfsráðgjöf, bæði á grunnskóla- og framhaldsskólastigi, til að nýta tíma og peninga nemenda og skólanna sjálfra betur.

Svokölluð starfsnámsnefnd skilaði hæstv. menntamálaráðherra góðri skýrslu í júní síðastliðnum þar sem bent er á leiðir til að jafna stöðu bóknáms og verk- og tæknináms með heildarendurskipulagningu framhaldsskólastigsins. Einnig er þar bent á mikilvægi þess að verk- og tækninám fái að þróast í takt við atvinnulífið og lagt til að meiri áhersla verði lögð á starfsmiðað framhaldsskólanám á háskólastigi þar sem úrval slíkra námsbrauta er afar takmarkað hérlendis og stutt hagnýtt nám sem sniðið er að þörfum atvinnulífsins er lítið sem ekkert.

Tengsl skólanna við atvinnulífið eru því miður lítil og framþróun þar með. Nemendur sem hafa hug á að efla sig á þessu sviði verða að sækja nám sitt erlendis og hluti þeirra kemur svo til baka.

Flestir eru sammála um að þrátt fyrir mikla uppbyggingu starfsmenntunar á framhaldsskólastiginu hafi bæði þarfir atvinnulífsins og nemendanna fyrir hagnýtt framhaldsnám á háskólastigi setið eftir.

Ég spyr því ráðherra um framhald vinnu þessarar nefndar hvað varðar þær tillögur sem fram eru komnar. Það eru athyglisverðar tillögur sem starfsnámsnefnd leggur til í þeirri skýrslu sem vitnað er til, en þar er lagt til að heildarendurskipulagning taki mið af viðtökumiðuðu námi þar sem háskólarnir hafi aðkomu að stefnumótun í framhaldsskólum og atvinnulífið í háskólunum.

Hins vegar verður slík framþróun ekki í skólakerfinu nema til komi aukið fjármagn hins opinbera. Fjárlagafrumvarpið sem liggur fyrir þessu þingi finnst mér að einhverju leyti vera skref aftur á bak í þessum efnum. Mér finnst þær tillögur sem þar liggja fyrir ekki heldur í takt við þær áherslur sem mér finnst ríkisstjórnin hafa beitt sér fyrir hvað varðar verk- og tækninámið.

Fjárlaganefnd og menntamálanefnd hafa fjallað um þetta mál og ríkir þar ríkir samhugur um málið þar sem menn leggja áherslu á að efla eigi enn frekar verk- og tækninám á öllu landinu. Ég spyr því ráðherra að lokum hvort hún sé tilbúin til að beita sér fyrir því að koma þessum málum til betri vegar.