133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framboð verk- og tæknináms.

218. mál
[13:25]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Aðeins varðandi síðasta hluta ræðu hv. þingmanns. Það er alveg ljóst að þær tillögur sem liggja fyrir voru ekki og eru ekki ætlaðar til að draga úr mikilvægi starfsnáms. Það er einfaldlega þannig. Við sjáum á hlutfallinu varðandi reiknilíkanið að bilið á milli bóknáms og verknáms hefur aukist á síðustu árum, þ.e. til hagsbóta fyrir starfsnámið. Það er ekki ætlunin að draga úr mikilvægi starfsnáms með þeim tillögum sem liggja fyrir. Það er ljóst að fara þarf í ákveðna skoðun á reiknilíkaninu og það mun verða gert á næstunni til að stuðla annars vegar að viðgangi starfsnáms en hins vegar líka bóknámsins, þannig að við getum tekið tillit til hinna ýmsu sjónarmiða og líka fjölbreytni sem framhaldsskólarnir vilja stuðla að og eiga svigrúm og tækifæri til að koma að. Það er ekki svo að hægt sé að aðgreina þetta algerlega í iðnnám eða verknám versus bóknám, því að eins og menn þekkja eru þarna ýmsir þættir sem skarast og jafnvel í iðnskólunum er um helmingur áfanga eða greina sem nemendur ganga til prófs í bóklegur. Það eru því ýmsir þættir sem skarast.

Það er ljóst að við munum þurfa að fara yfir það reiknilíkan sem fyrir er til þess að við getum haldið áfram uppgangi og viðgangi starfsnámsins. Það er ýmislegt sem þarf að taka á því sambandi. Ég hef margítrekað að við þurfum fyrst og síðast að breyta um viðhorf í samfélaginu gagnvart starfsnámi til þess að fleiri fari í það. Eru ekki tækifæri til þess? Jú, að sjálfsögðu eru tækifæri til að stunda starfs- og iðnnám. 87 brautir standa nemendum til boða þegar þeir koma á framhaldsskólastigið. Þar af hafa 15 nýjar starfsnámsbrautir verið settar á laggirnar á síðustu fjórum árum. En fólkið vantar. Ég held að fyrst og fremst þurfi hugarfarsbreytingu í samfélaginu og kannski fyrst og síðast heima fyrir. Við þurfum líka að efla — ég tek heils hugar undir það með hv. fyrirspyrjanda — náms- og starfsráðgjöf og ekki eingöngu í framhaldsskólanum heldur ekki síður í 9. og 10. bekkjum grunnskólans til þess að reyna að gera nemendum grein fyrir hvert hugur þeirra stefnir í raun og veru en ekki eins og ég hef oft tekið sem dæmi, eins og einn góður vinur minn, sem er meistari í múraraiðn, sagði: Ef ég beini ekki börnunum mínum í iðnnám af hverju ættu þá aðrir að gera það?

Það þarf fyrst og fremst hugarfarsbreytingu til að sýna fram á þá mikilvægu kosti sem starfsnámið tvímælalaust hefur núna, ekki síst í þeim heimi sem við lifum í sem gerir sífellt meiri kröfur til fjölbreyttari hæfni og getu nemenda og þeirra sem fara síðan út á vinnumarkaðinn. Framboð náms er gott en aðsókn í það nám sem er í boði er áhyggjuefni. Þess vegna tel ég rétt að við hugum að nýjum og róttækum leiðum til að auka aðsóknina og því skipaði ég þá nefnd sem hefur oft verið kölluð starfsnámsnefndin. Hún skilaði af sér í vor þar sem hún leggur til mjög róttækar tillögur um að við komum til með að tala um eitt framhaldsskólanám, um eitt stúdentspróf, ekki bóknám eða verknám. Hér reynir í fyrsta sinn á það að breyta hugarfari, í þingsalnum líka, þeirra sem hafa oft verið fastir í því að tala um starfsnám versus bóknám, að við náum að breyta hugarfarinu til að verða síðan fyrirmyndir fyrir aðra hvað varðar umræðu af þessu tagi.

Ég tel mikilvægt og tímabært að þróa framhaldsskólann á þessum breiða grunni. Setja honum rúman ramma þannig að ólíkar raddir finni þann hljómgrunn sem þær leita eftir og góðar hugmyndir fái þannig verðskulduð tækifæri. Ég hef þegar beint því inn í svonefnt tíu skrefa samkomulag að tillögur starfshópsins um starfsnámið fái strax umfjöllun og meðferð því að þar er um að ræða, eins og ég gat um, fjölbreyttari framhaldsskóla ef tillögurnar verða að veruleika, sem gefa hverjum skóla svigrúm til að móta sínar tillögur, móta sitt framboð, taka tillit til þess umhverfis sem þeir búa við um leið og þeir geta sérhæft sig á ákveðnum sviðum, hvort heldur fyrir atvinnulífið eða háskólanám síðar meir fyrir nemendurna.

Ég tek undir að við þurfum að halda áfram. Það er verið að gera eitt og annað til að stuðla að eflingu verk- og iðnnáms en fyrst og síðast þarf að eiga sér stað hugarfarsbreyting í samfélaginu.