133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framboð verk- og tæknináms.

218. mál
[13:31]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Á föstudaginn var kvaddi hv. þm. Jón Bjarnason sér hljóðs utan dagskrár um framhaldsskólana. Ég tók til máls í þeirri umræðu og taldi fyrirspurn hans og umræðu alveg óþarfa þar sem hann mætti mjög vel vita að þetta mál væri á forsjá fjárlaganefndar og hann hefur sjálfur fylgst grannt með því að verið væri að vinna mjög vel að þessu, það stæði alveg til og mætti treysta því að fullkomið samkomulag yrði milli fjárlaganefndar og menntamálaráðherra.

Ég vil bara ítreka þetta og hélt að öllum væri þetta mjög vel kunnugt. Ég tel og er viss um að hv. stjórnarþingmanni Sæunni Stefánsdóttur sé þetta mjög vel kunnugt líka, að svona mun verða gengið frá þessu. Það er unnið að þessu af öllum aðilum og engin ástæða til að efast um annað en að góð sátt ríki að lokum.