133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framboð verk- og tæknináms.

218. mál
[13:34]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp. En þannig var að þegar hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir sendi inn fyrirspurnina var umræðan um reiknilíkanið ekki komin upp. Það sem hv. þingmaður var að hugsa með þessari spurningu voru í rauninni þær tillögur sem starfsnámsnefndin kom fram með og hvernig ráðherra hygðist beita sér fyrir þeim tillögum, en í millitíðinni hefur blossað upp umræða um reiknilíkanið. Og það er alveg rétt sem hv. Einar Oddur Kristjánsson kom inn á áðan, að mikill vilji er innan þeirra þingnefnda sem fjalla um þetta mál að reyna að leysa úr þessu og ég vil taka undir með formanni fjárlaganefndar um gott samstarf fjárlaganefndar, menntamálanefndar og hæstv. ráðherra um þetta málefni.

Ég vil einnig taka undir með hæstv. ráðherra að hugarfarsbreytingu þurfi til að efla verk- og starfsnám og þar verðum við hér á hinu háa Alþingi að sýna gott fordæmi en það gerum við því miður ekki eða a.m.k. að takmörkuðu leyti í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir.