133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framboð verk- og tæknináms.

218. mál
[13:36]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég er sammála hæstv. menntamálaráðherra í að auka þarf veg starfsnámsins og láta starfsnámið vera jafngilt í vægi í námsmati og bóknám.

Ég bendi á þessi háttur var tekinn upp við Hólaskóla líklega 1986 og þar hefur síðan ávallt verið jafnvægi á verklegu og bóklegu námi. Það var einmitt styrkur skólans að geta sýnt fram á það í reynd að þetta væri jafnvægt. Mér þykir því gott ef hæstv. ráðherra menntamála sem nú situr er farin að draga lærdóm af því öfluga menntastarfi sem hefur ríkt um áratugi á Hólum.

Ég vil líka taka undir þær áherslur hæstv. ráðherra að hugarfarsbreytingu þurfi gagnvart starfsnáminu, ekki hvað síst hér í þinginu og í ríkisstjórninni. Ég er ekki að væna hæstv. menntamálaráðherra um neitt en þau (Forseti hringir.) skilaboð sem hafa komið um að fjármunir til framhaldsskólans, einmitt til verk- og tæknináms, eru skornir um 300 millj. kr. segja sitt um hvar þarf að byrja á hugarfarsbreytingunni.