133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framboð verk- og tæknináms.

218. mál
[13:38]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þau hlýju orð sem fallið hafa í garð okkar sem sátum í hinni merku starfsnámsnefnd sem gerði, eins og fram hefur komið, afskaplega merkar tillögur sem hæstv. ráðherra vonandi nær að koma að einhverju leyti í framkvæmd.

Það er gífurlega mikilvægt að breyta viðhorfum í samfélaginu. Ég held einmitt að þau skref sem stigin voru í þessum merka starfshópi, þar sem náðist gífurlega samstaða á milli aðila vinnumarkaðarins, skólafólks og stjórnmálamanna, sé einmitt grunnurinn sem við eigum að byggja á í vinnu við slíka breytingu. Þess vegna er mjög mikilvægt að það komi fram í raunhæfum tillögum að fólk sé á þessari leið.

Það er líka fagnaðarefni að hér kemur það fram að í raun hafi verið gerð mistök í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, mistök hafi verið gerð þegar niðurskurðurinn var framkvæmdur í framhaldsskólunum. Það er líka fagnaðarefni að nú stefnir í að mjög víðtæk pólitísk (Forseti hringir.) samstaða verði um að taka þau mistök til baka.