133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framboð verk- og tæknináms.

218. mál
[13:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sæunn Stefánsdóttir) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svör hennar og þeim þingmönnum sem tekið hafa til máls. Tilgangur fyrirspurnarinnar var, eins og fram kom í máli hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur, að inna ráðherra eftir svörum hvar sú vinna fyrrnefndrar eða títtnefndrar starfsnámsnefndar stæði og það kom skýrt fram í máli ráðherra að vinnan við að koma að þeim tillögum er í fullum gangi. Enda tek ég undir það sem fram hefur komið í máli þingmanna að þessar tillögur eru mjög róttækar en þær eru líka mjög góðar.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að fyrst og fremst þurfum við að breyta því viðhorfi sem ríkir í samfélaginu til verk- og tæknináms. Mér finnst þessi umræða góð og sýna að það er svo sannarlega vilji bæði hjá hæstv. menntamálaráðherra og hjá hv. þingmönnum til að taka þátt í því. Við getum þó þegar við ræðum um verk- og tækninámið á þessu stigi ekki komist hjá því að ræða um það frumvarp sem liggur fyrir. Mér er fyllilega kunnugt um það starf sem á sér stað meðal fjárlaganefndar og menntamálanefndar og sat þar sjálf fund, enda fulltrúi í menntamálanefnd, og þar ríkir fullkomin eining um að það þurfi enn frekar að rétta stöðu verk- og tækninámsins.

Ég skil líka vel þá stöðu sem hæstv. menntamálaráðherra er í en við vitum að ráðherrann beitti sér fyrir auknum framlögum til verk- og tækninámsins síðast 2004, ef ég man rétt, og þess vegna fannst mönnum kannski svigrúm vera þar fyrir hendi. En þá bendir maður jafnframt á að kannski um langa hríð hefur þurft að létta hlut verk- og tækninámsins og með þeim framlögum sem komu þá, árið 2004, er erfitt í sjálfu sér að draga eitthvað úr núna. Þess vegna fagna ég mjög þeim viðhorfum sem komu fram í máli ráðherrans um að hún ætli að beita sér fyrir endurskoðun reiknilíkansins og ég lýsi mig sem og aðrir þingmenn reiðubúna til að aðstoða hana við að efla enn frekar verk- og tækninám, eins og ég veit að metnaður er til staðar um.