133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framhaldsskóli í Rangárvallasýslu.

285. mál
[13:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um hvort til standi að kanna möguleika á stofnun framhaldsskóla í Rangárvallasýslu. Það er mikilvægt að efla framhaldsskólanám í héraði þar sem upp á vantar. Svæðið sem yrði heimasvæði skólans er orðið mannmargt og öflugt. Hingað til hefur verið samstaða um Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi þar sem fram fer öflugt nám og eru orðið yfir þúsund nemendur ári.

Það er því vert að skoða hvort það geti borgað sig að færa menntunina meira heim í hérað og stofna annan framhaldsskóla í Rangárvallasýslu sem tengdist því svæði lengst austur úr. Næsti framhaldsskóli er á Hornafirði og verulega stórt svæði á milli skólanna. Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur dafnað vel og er með betri framhaldsskólum á landinu. En að mínu viti kemur til greina að skoða stofnun á sérstökum framhaldsskóla í Rangárvallasýslu. Ég held að það gæti orðið til að styrkja svæðið og byggðakjarnana þar, sem mundu sjálfsagt stækka við þetta auk þess sem það yrði til að fjölga mjög nemendum á framhaldsskólastigi ef horft væri sérstaklega til þess að hafa þar öfluga fullorðinsfræðslu og gott framboð á því sviði.

Ég held að stofnun á slíkum framhaldsskóla gæti bæði orðið til að efla menntunina á öllu svæðinu og bæta menntunina í landinu öllu. Við þurfum að verja meira fé til menntamála og efla menntun á öllum skólastigum, sérstaklega á framhaldsskólastigi. Við sjáum í umræðunum á Alþingi í dag að það kemur við menn þegar að framhaldsskólanum er sótt eins og nú gerir. Iðnnámið er í vanda. Styttingaráformin margfrægu virðast heyra sögunni til og ætlunin er að fara aðrar leiðir. Það þarf að efla skólastigið. Á Vesturlandi var t.d. stofnaður sérstakur menntaskóli í Borgarnesi þótt öflugur framhaldsskóli sé á Akranesi.

Það getur verið góður kostur og margborgað sig að fjölga framhaldsskólum að ákveðnu marki. Þess vegna tel ég að sérstakur framhaldsskóli í Rangárvallasýslu gæti orðið í þágu menntunar í landinu og menntunar á þessu svæði. Því beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra.