133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

framhaldsskóli í Rangárvallasýslu.

285. mál
[13:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Auðvitað er víða þörf fyrir uppbyggingu á nýjum framhaldsskólum og þeirri þörf þarf að mæta, m.a. þeirri fólksfjölgun sem er hér á höfuðborgarsvæðinu.

Ég held hins vegar að það gæti orðið til mikillar sóknar á svæði eins og því sem hér er spurt um ef þar væru framhaldsskólar. Það er ríkur vilji til þess meðal heimamanna. Á fundum okkar þingmanna með sveitarstjórnarmönnum á svæðinu hefur komið fram ríkur vilji til að athugað verði með uppbyggingu á sérstökum framhaldsskóla. Þeir sjá að þar er mikið sóknarfæri fyrir svæðið til að fjölga fólki verulega, þannig að það að miða við núverandi íbúafjölda og hlutfall nemenda úr grunnskóla stenst ekki eitt og sér, enda væri þetta aðgerð til sóknar og efling menntunar á þessu svæði eins og annars staðar. Ég tel að svona aðgerð komi vel til greina sem slík.

Ég tel að það yrði farsælt skref að stofna þarna sérstakan framhaldsskóla, hvar sem hann er í forgangsröðinni, hvort sem það yrði gert á næstu missirum eða eftir nokkur ár. En ég held að athugun á því þurfi að fara fram. Ég held að það yrði til að fjölga þeim á svæðinu sem sækja sér menntun. Það er töluverð vegalengd í skólann á Selfossi þótt samgöngur séu góðar. Ég held að þetta gæti orðið heillaskref fyrir svæðið að stofna þar sérstakan framhaldsskóla. Ég kalla eftir því að það verði tekið til sérstakrar athugunar.