133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

bráðaþjónusta á Suðurnesjum.

133. mál
[13:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um bráðaþjónustu við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ. Það er kunnara en frá þurfi að segja að lengi hafa verið uppi kröfur á Suðurnesjum um að veitt yrði sólarhringsbráðaþjónusta á skurðstofum á heilbrigðisstofnuninni. Þessi þjónusta yrði veitt alla daga ársins og ekki á að þurfa að koma til þess að flytja þurfi fólk, sem auðveldlega hefði verið hægt að sinna heima, á Landspítalann í Reykjavík vegna skorts á þjónustu skurðstofu.

Öryggið sem sólarhringsþjónusta á skurðstofu veitir öllum aðilum sem á þurfa að halda — þá er ég bæði að tala um sjúklingana sem þurfa á þjónustunni að halda og ekki síður heilbrigðisstarfsfólkið sem vinnur við þær aðstæður að bráðatilfelli getur hitt á lokun á skurðstofu — er ómetanlegt fyrir þetta fólk og því er von að hér sé spurt hvort ekki standi til að auka fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Reykjanesbæ þannig að hún geti sinnt þessari sjálfsögðu þjónustu sem við heimamenn köllum svo.

Það að skurðstofan er ekki alltaf opin getur haft áhrif á það hvort sú þjónusta sem í boði er á heimaslóðum er valin eða ekki. Þetta hefur því áhrif á ímynd heilbrigðisstofnunarinnar og hvort fólk telur hana geta veitt fulla þjónustu, alltaf. Það nægir að nefna að á heilbrigðisstofnuninni hefur verið mjög góð og öflug fæðingardeild sem hefur getið sér gott orð um allt land, bæði fyrir viðmótið sem þar er og þá þjónustu sem veitt er, en afgreiðslutími á skurðstofu er einn af þeim þáttum sem verðandi foreldrar velta fyrir sér þegar kemur að því að velja hvar fæða skuli barn. Það væri afar mikilvægt fyrir þá sem nýta þessa þjónustu að vita að skurðstofan væri alltaf opin ef eitthvað óvænt kæmi upp á.

Akstur með sjúklinga á Reykjanesbraut til Reykjavíkur, sjúklinga sem hægt væri undir venjulegum kringumstæðum að meðhöndla heima, getur aldrei komið og kemur á engan hátt í staðinn fyrir skurðstofuþjónustu og á aldrei að vera útreiknaður valkostur á móti því að meðhöndla sjúklingana heima.

Ég man eftir því í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram í fyrra eða hittiðfyrra og eins í tengslum við gerð fjárlaga að það var talað um að viðbótarkostnaður við svona þjónustu gæti verið í kringum 40 millj. kr. á ári. Þetta eru ekki miklir fjármunir, og alls ekki kemur til greina að mínu viti að spara þá og veita ekki þessa þjónustu.

Nú stendur fyrir dyrum að klára innréttingu á 3. hæð D-álmu þar sem verða nýjar og fullkomnar skurðstofur og því er eðlilegt að spyrja hvort ráðherra ætli að beita sér fyrir því að unnt verði að starfrækja þessa sólarhringsvakt á heilbrigðisstofnuninni allt næsta ár, og eins hver er þá áætlaður viðbótarkostnaður við þá starfsemi.