133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

bráðaþjónusta á Suðurnesjum.

133. mál
[14:02]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 10. þm. Suðurk. Jón Gunnarsson beinir til mín spurningu í tveimur liðum. Í fyrsta lagi spyr þingmaðurinn: Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að unnt verði að starfrækja sólarhringsbráðavakt á skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á næsta ári? Í öðru lagi: Hver er áætlaður viðbótarkostnaður við það?

Eins og Alþingi er kunnugt eiga sér núna stað verulegar endurbætur á aðstöðu skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Skurðstofurnar eru fluttar til í stofnuninni og algerlega endurnýjaðar. Þegar þessum breytingum verður lokið gjörbatnar öll skurðstofuaðstaða á stofnuninni. Undanfarin ár hefur skurðstofan verið opin frá mánudegi til fimmtudags með bakvaktir flesta daga til kl. 8 á kvöldin nema þriðjudaga og miðvikudaga, þá hafa verið bakvaktir til næsta morguns. Skurðstofunni hefur þurft að loka yfir hásumarið og yfir jól og nýár. Á hverri bakvakt eru tveir læknar, annar er skurðlæknir og hinn svæfingalæknir, og þrír hjúkrunarfræðingar, þar af tveir skurðhjúkrunarfræðingar og einn fæðingarhjúkrunarfræðingur.

Að mati ráðuneytisins mundi heildarlaunakostnaður við bakvaktir allan sólarhringinn alla daga ársins nema að lágmarki um 60 millj. kr. Er þá miðað við að útköll séu að meðaltali tvisvar í viku. Launakostnaður við bakvaktir er nú um 15 millj. kr. Í þessu sambandi er rétt að minna á að á bakvöktum er vakthafandi starfsfólk ekki á bundinni vakt í stofnuninni. Það er kallað út þegar þörf krefur.

Eins og ég gat um áðan á sér núna stað flutningur og algjörar endurbætur á skurðstofu stofnunarinnar. Að mínu mati er því eðlilegt að sjá hvernig starfsemin fer af stað í nýju umhverfi áður en vöktum verður fjölgað. Í því sambandi er einnig rétt að hafa í huga að einungis er gert ráð fyrir einum almennum skurðlækni í áðurgreindum kostnaði. Má gera ráð fyrir að í einhverjum þessara tilvika sem þarfnast aðgerða yrði að flytja sjúkling í hendur sérfræðinga í öðrum greinum skurðlækninga og þyrftu þeir því að flytjast á Landspítalann óháð því hvort um sólarhringsvakt væri að ræða eða ekki. Einnig verður að hafa sérstaklega í huga að tíðni útkalla er frekar lág, eins og fram kom hér að framan, það er fremur stutt akstursleið til mjög öflugrar skurðstofu á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi og akstursleiðin þangað hefur verið bætt stórlega með tvöföldun Reykjanesbrautar.

Ég vil einnig í þessu sambandi benda á að bráðavakt lækna er allan sólarhringinn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til að veita fyrstu meðferð.