133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

bráðaþjónusta á Suðurnesjum.

133. mál
[14:07]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp en ástæða þess að ég kem upp er kannski ekki beint svör hæstv. ráðherra þó að ég hefði gjarnan viljað heyra það að með bættri aðstöðu á skurðstofum væri fyrirhugað að starfrækja bráðavakt allan sólarhringinn. Hins vegar dreg ég fyllilega í efa þá fullyrðingu sem hér kom fram hjá hv. þingmanni, formanni heilbrigðis- og trygginganefndar, um að þjónustan við íbúa á Suðurnesjum hefði verið bætt stórkostlega. Ég efast um það, einfaldlega vegna þess að ítrekað hafa komið fram athugasemdir og erindi til þingmanna kjördæmisins vegna þeirrar þjónustu sem þarna er veitt og óskað eftir verulegum úrbótum þar, þar á meðal á bráðavaktinni og eins hvað varðar heilsugæsluna á svæðinu. Kostnaðurinn er því kannski ekki vegna þess að svo mikið hafi verið bætt úr þjónustunni, heldur vegna þeirra breytinga sem (Forseti hringir.) hafa verið gerðar.