133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

bráðaþjónusta á Suðurnesjum.

133. mál
[14:10]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér var sagt að við ætluðum ekki að veita aukna fjármuni til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Reyndar munum við gera það. Það mun koma í ljós í þeirri vinnu sem nú á sér stað á milli ráðuneyta. Varðandi þetta verkefni sérstaklega tel ég eðlilegt, eins og hér kom fram áðan, að við förum í það verk og klárum það núna að endurnýja skurðstofurnar. Þær verða glæsilegar eins og hér kom fram hjá hv. þingmanni. Þetta er mál sem Suðurnesjamenn hafa auðvitað verið mjög áhugasamir um og við höfum talið rétt að fara í og þess vegna er verið að veita núna — mig minnir að það séu 70–80 millj. sem það kostar að endurnýja skurðstofurnar sem eru á 3. hæðinni. Ég tel eðlilegt að við hinkrum eftir því að þær skurðstofur fari í gang áður en við ákveðum eitthvað um aukningu á vöktum.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni að þjónustan er góð á Suðurnesjum. Hún hefur batnað, a.m.k. er umræðan sem við heyrum varðandi starfsemina sem þarna fer fram sú að fólk sé ánægt með hana. Það er verið að sinna fleirum heima en áður var gert þannig að starfsemin á staðnum hefur eflst. Það ber líka að hafa í huga að það er mikil íbúafjölgun á Suðurnesjum. Meðan íbúum fjölgar er verið að þjónusta fleiri hlutfallslega í heimabyggð og það er mjög jákvætt. Ég tel að í framtíðinni verði mikilvægt að hlúa mjög vel að þessari stofnun og það munum við gera.