133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

stækkun hjúkrunarheimilisins Sóltúns.

117. mál
[14:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Umræða um skort á plássum á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða á höfuðborgarsvæðinu hefur verið mikil á undanförnum missirum og ekki síst í kosningabaráttunni fyrir sveitarstjórnarkosningar sem haldnar voru síðasta vor. Það liggur fyrir að 300–400 aldraðir einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu bíða eftir plássum á hjúkrunarheimili. Á hverjum tíma liggja milli 60 og yfir 100 aldraðir einstaklingar inni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem lokið hafa meðferð á spítalanum en bíða eftir plássi á hjúkrunarheimili. Þessi staða hefur gert spítalanum erfitt fyrir að gegna hlutverki sínu sem aðalbráðasjúkrahús landsins. Það hefur aukið álag á starfsfólk spítalans, auk þess sem ekki þarf að hafa mörg orð yfir þau óþægindi sem hinn aldraði hefur af því að liggja á sjúkrahúsi þegar önnur úrræði eru hentugri og mannúðlegri.

Þá verður að benda á þá ótrúlegu staðreynd að spítalinn hefur ekki forgang á pláss fyrir skjólstæðinga sína á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu, að undanskildu Sóltúni og Vífilsstöðum, þótt eitthvað hafi úr því ræst á síðustu mánuðum. Það er ekki ofsögum sagt að aldraðir Reykvíkingar og aðstandendur sem bíða vikum og mánuðum saman eftir úrlausn séu orðnir óþreyjufullir. Þeim finnst lítið þokast í þessum málum í höfuðborginni og ég tek undir þær áhyggjur. Áform um byggingu hjúkrunarheimilis á Lýsislóðinni og í samvinnu við Markarholt hafa greinilega tafist og ekkert í spilunum bendir til að þau munu opna á næstu tveimur árum. Meðal annars var sagt: Fyrstu áform voru um að Markarholt yrði opnað á þessu ári.

Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að rekstraraðilar hjúkrunarheimilisins Sóltúns hafa áhuga á að stækka heimilið og telja sig geta á einu ári fjölgað hjúkrunarrýmum um meira en helming, þ.e. úr 90 í 180–190 pláss. Slík beiðni hefur legið fyrir um tveggja ára skeið en ekkert hefur þokast.

Í kosningabaráttu fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík síðasta vor vakti það t.d. athygli að Björn Ingi Hrafnsson, varaþingmaður og oddviti Framsóknar í borginni, lagði áherslu á það í málefnaskrá sinni að stækka Sóltúnsheimilið. Í ljósi þessa varpa ég eftirfarandi spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að teknar verði upp viðræður við rekstraraðila hjúkrunarheimilisins Sóltúns um viðbyggingu fyrir þjónustu við aldraða sem þarfnast vistunar á hjúkrunarheimili?