133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

stækkun hjúkrunarheimilisins Sóltúns.

117. mál
[14:19]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég tel rétt að undirstrika það sem fram kom í máli hæstv. heilbrigðisráðherra, að það liggur fyrir að hafist verður handa við að byggja 200 ný hjúkrunarrými í Reykjavík, annars vegar 110 rými við Suðurlandsbraut og hins vegar 90 rýma byggingu á svokallaðri Lýsislóð. Þess utan liggur fyrir sú ákvörðun hæstv. ráðherra að 174 ný hjúkrunarrými verði reist á næstu árum. Það liggur alveg ljóst fyrir að fram undan er stórkostleg uppbygging á hjúkrunarrýmum og ber að fagna því sérstaklega. Það liggur líka fyrir að á næstu tveimur árum verður 1,3 milljörðum kr. varið til þeirrar uppbyggingar.

Síðast en ekki síst vil ég fagna því sérstaklega að ákveðið hefur verið að hætta að nota fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra (Forseti hringir.) til að reka hjúkrunarrými heldur verður þeim fjármunum eingöngu varið (Forseti hringir.) til uppbyggingar.