133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Ekron-starfsþjálfun.

144. mál
[14:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn um Ekron-starfsþjálfun í þeim tilgangi að varpa ljósi á nauðsyn þess að gerður verði þjónustusamningur við Ekron áður en fjárlagaumræðunni lýkur á Alþingi síðar í þessum mánuði.

Í áfangaskýrslu starfshóps um starfsendurhæfingu á Íslandi frá því í febrúar 2004 komu m.a. fram eftirfarandi niðurstöður, nánast orðrétt, með leyfi forseta

Endurskipuleggja þarf starfsendurhæfingu hér á landi og auka framboð. Þörf er á að breyta læknisvottorðum vegna fjarvista frá vinnu þannig að þau endurspegli hvort þörf kunni að vera á starfsendurhæfingu. Starfsendurhæfing er áhrifarík leið til að fyrirbyggja ótímabæra örorku ef hægt er að grípa snemma inn í óvinnufærniferlið.

Frú forseti. Miðað við ofangreint og ástandið í þjóðfélaginu í dag ætti öllum að vera ljóst að Ekron getur orðið mikilvæg og lífsnauðsynleg viðbót við þau úrræði sem núna eru fyrir hendi. Ekron-starfsþjálfun er staðsett í Kópavogi með starfsmenn eins og áfengisráðgjafa og félagsráðgjafa og hugmyndafræðin er mótuð af Hjalta Kjartanssyni.

Hvaða hugmyndafræði er hér að baki? Jú, hér er um að ræða einstaklingsmiðaða starfsþjálfun, sértæka atvinnutengda starfsþjálfun. Einstaklingarnir fara út á hinn almenna vinnumarkað undir handleiðslu hópstjóra. Þeir byrja að vinna í um tvo tíma á dag og bæta síðan smátt og smátt við sig. Starfsþjálfunin er jafnframt tengd atvinnulegri endurhæfingu og markmiðið er að aðstoða fólk sem hefur lent í vímuefnavanda, byggja það upp fyrir framtíðina þannig að það geti tekið virkan þátt í þjóðfélaginu á ný. Hér er um að ræða jákvæða aðferð til að sporna við fjölgun öryrkja.

Vímuefnaneysla, með öllum þeim félagslegu vandamálum sem fylgja, er eitt af stóru vandamálunum í dag. Afleiðingin er margþætt og er ekki bara félagsleg heldur og fjárhagslegur skaði fyrir aðstandendur og allt þjóðfélagið. Langvarandi vímuefnaneysla leiðir af sér andlega vanlíðan, geðraskanir og geðveiki, sem aftur leiðir af sér örorku. Hlutfallsleg fjölgun fólks sem verður öryrkjar vegna geðraskana hefur verið gríðarleg á síðasta áratug, þær eru nú algengasti kvillinn sem leiðir til örorku meðal karla og sá næstalgengasti meðal kvenna.

Þetta er einmitt markhópur Ekron, einstaklingar sem hafa farið í vímuefnameðferð og/eða hafa glímt við einhvers konar fíkn og eiga ekki greiðan aðgang út á hinn almenna vinnumarkað.

Í ljósi alls þessa spyr ég, frú forseti, hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra:

1. Telur ráðherra að hugmyndafræði Ekron, og starfsþjálfun og endurhæfing þar, geti reynst vel við að aðstoða óvirka alkóhólista, fíkniefnaneytendur og öryrkja til að komast aftur út á vinnumarkaðinn?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að Ekron-starfsþjálfun fái rekstrarstyrki frá ríkinu?