133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Ekron-starfsþjálfun.

144. mál
[14:29]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Suðvest., Valdimar Leó Friðriksson, hefur beint til mín tveimur spurningum er varða Ekron-starfsþjálfun. Það ágæta fólk sem af mikilli hugsjón hefur gengist fyrir stofnun Ekron-starfsþjálfunar hefur kynnt mér hugmyndir sínar og áætlanir um rekstur. Þau hyggjast bjóða atvinnuendurhæfingu, fólki sem hefur vegna örorku eða ofneyslu áfengis eða vímuefna ekki tekist á fóta sig á vinnumarkaði.

Eins og kunnugt er hefur nefnd á vegum hæstv. forsætisráðherra undanfarið fjallað um hvernig megi bregðast við fjölgun öryrkja. Eitt af þeim verkefnum sem þar er til umfjöllunar er einmitt starfs- og atvinnuendurhæfing öryrkja og þeirra sem hafa átt í langtímaveikindum. Meðal annars er fjallað um hvar best sé að koma slíkri endurhæfingu fyrir, hvort rétt sé að hún sé á forræði Vinnumálastofnunar sem fer almennt með útvegun atvinnu og atvinnuendurhæfingu atvinnulausra eða hvort hún eigi að vera á hendi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins eða beggja.

Við horfum til niðurstöðu þeirrar nefndar hvað varðar heildarskipulag á atvinnulegri endurhæfingu fyrir öryrkja og einnig því hvernig megi örva öryrkja sem allra mest til starfa á almennum vinnumarkaði. Frjáls félagasamtök og ýmsir einkaaðilar hafa sýnt mikinn dugnað við að byggja upp mikilvæg úrræði á þessu sviði. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið hafa notað ýmis þeirra úrræða fyrir skjólstæðinga sína, ýmist með gerð þjónustusamninga eða með veitingu styrkja.

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er spurt hvort ráðherra telji að hugmyndafræði Ekron, og starfsþjálfun og endurhæfing þar, geti reynst vel við að aðstoða óvirka alkóhólista, fíkniefnaneytendur og öryrkja til að komast aftur út á vinnumarkaðinn.

Því er til að svara, eins og fyrr segir, að ég hef átt viðræður við það fólk sem stendur að þessari starfsþjálfun og kannað þau gögn sem það hefur sent ráðuneytinu. Í þeim gögnum koma fram hugsjónir starfseminnar, markmið og gróf kostnaðaráætlun. Einnig er lausleg lýsing á því hvernig þjónustunni muni verða háttað.

Starfsemin byggist á kristilegum grunni og styðst m.a. við 12 spora kerfi AA-samtakanna. Gert er ráð fyrir að fólk sé undir verndarvæng Ekron-starfsþjálfunar í 3 til 24 mánuði og árangurinn af starfseminni verði um 50–75%. Um árangur af þeirri meðferð og stuðningi sem Ekron-starfsþjálfun hyggst veita skortir upplýsingar og ekki var í þeim gögnum sem lögð voru fram vísað í rannsóknir eða faglegar úttektir á sambærilegum úrræðum. Mér er því frekar erfitt um vik að svara spurningunni beint. Hugsanlega munu aðferðir Ekron-starfsþjálfunar reynast vel. Ég vona það og óska aðstandendum Ekron velfarnaðar í starfi sínu.

Síðari spurningin er:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að Ekron-starfsþjálfun fái rekstrarstyrki frá ríkinu?“

Því er til að svara, eins og fram hefur komið, að þá er verið að ræða um hvar atvinnuleg endurhæfing sé best sett í hinu opinbera kerfi. Ég tel því eðlilegt að skoða málið, annaðhvort á vettvangi félagsmálaráðuneytisins eða á vettvangi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins þegar sú vinna er lengra komin.

Virðulegi forseti. Það er afar mikilvægt að huga að málefnum öryrkja og langveikra og örva þá til þátttöku í atvinnulífinu eins og nokkur kostur er. Fljótlega mun skýrast betur hvernig ríkisstjórnin hyggst standa að frekari þróun og skipulagi þessara mála, þ.e. þegar nefnd forsætisráðherra skilar tillögum sínum.

Í því sambandi vil ég benda á að á vettvangi Norðurlandaráðs var sérstakur fundur þar sem rætt var um velferðarkerfi Norðurlandanna. Þar var sérstaklega undirstrikað hve mikilvægt væri að halda fólki að vinnu eins og hægt væri. Þar hefur okkur Íslendingum tekist tiltölulega vel upp. Við erum að minnsta kosti með mun hærra hlutfall á vinnumarkaði, þ.e. hlutfall atvinnulausra er almennt lægra hér. Hlutfall þeirra sem hafa vinnu í íslensku samfélagi er hærra hér en t.d. á Norðurlöndunum þar sem það er orðið mikið vandamál hversu margir vinna ekki. Það þarf virkilega að bæta öll úrræði til að halda sem flestum að vinnu. Af því það eru mikil lífsgæði sem felast í því að geta unnið.

Það þarf að aðstoða ákveðna hópa. Það eru m.a. öryrkjar sem orðið hafa fyrir áföllum vegna neyslu, bæði áfengis og fíkniefna, þannig að ég hef mikla samúð með slíkri starfsemi og tel hana nauðsynlega. En ég tel eðlilegt, áður en lengra er haldið gagnvart þessu verkefni, að við fáum niðurstöðu í nefnd forsætisráðherra hvar þessi málaflokkur eigi að vistast til framtíðar.