133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Ekron-starfsþjálfun.

144. mál
[14:34]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valdimari Leó Friðrikssyni fyrir að taka þetta mál upp á hinu háa Alþingi. Eins og fram hefur komið í máli hv. þingmanns og hæstv. ráðherra er þetta gott framtak hugsjónafólks sem ber að þakka fyrir. Það er ýmsu til þess kostandi að koma fólki sem tekið hefur feilspor út á vinnumarkaðinn á nýjan leik.

Það er að mínu mati ljóst að starfsþjálfun Ekron mun hjálpa til í þeim efnum og jafnvel þótt ekki næðist alveg 50–75% árangur á meðferð eins og að er stefnt. En ég vil fagna því að það sé í skoðun hjá ráðherra og ríkisstjórninni hvort styrkja eigi þessi ágætu samtök við þeirra góða starf.