133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

forvarnir í fíkniefnamálum.

149. mál
[14:43]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Neysla á löglegum fíkniefnum en þó sérstaklega á ólöglegum fíkniefnum er brestur í samfélaginu. Við höfum verið að gefa eftir á síðustu missirum og fíkniefnin flæða nú yfir samfélagið eins og holskefla. Daglega eru fréttir af þeim áhrifum sem þau valda í samfélaginu. Lítil börn eru að finna fíkniefni heima hjá sér og éta þau eins og hvert annað eitur. Fjöldi ungs fólks leggur líf sitt í rúst á örfáum missirum, varla komið af barnsaldri. Forvarnir hafa ekki fylgt eftir hvað varðar alvarleika meinsins.

Það er fyrst og fremst tvennt sem við getum gert til að mæta neyslu á fíkniefnum. Það er annars vegar að efla forvarnir og hins vegar að byggja upp öflugar meðferðarstofnanir. Forvarnir og öflug meðferðarúrræði skipta þarna öllu máli.

Ég tel að þyngd refsinga skipti þarna litlu máli og held hreinlega að með því að þyngja refsingar við smábrotum og hliðartengdum afbrotum, eins og smygli á fíkniefnum og fleiru, geti vandinn orðið enn þá alvarlegri. Ég held að fyrst og fremst þurfum við að efla forvarnirnar gífurlega og styrkja meðferðarúrræði.

Það er t.d. óviðunandi að SÁÁ skuli árlega þurfa að berjast fyrir lífi sínu með öllum tiltækum ráðum til að halda starfsemi sinni úti. Þar er unnið frábært starf, eins og við vitum öll, og hefur gjörbreytt þessum málum. Við þurfum að efla forvarnirnar.

Stjórnmálaflokkarnir hafa stundum tekið þetta upp. Það muna allir eftir loforðinu um milljarð til forvarna í fíkniefnamálum fyrir nokkrum árum. Það gekk ekki eftir nema að mjög litlu eða jafnvel engu leyti, eins og svar hæstv. heilbrigðisráðherra til mín fyrir tveimur árum gaf til kynna, en árið 2003–2004 var einungis varið 78 millj. í sérstakan forvarnasjóð. Það er að sjálfsögðu hneyksli hversu litlu fé við verjum til forvarna. Það er hneyksli af því að það er ráðið sem dugir til að berjast gegn fíkniefnum. Það vitum við öll. Öflugar forvarnir sem ná til barnanna strax í grunnskóla. Öflugar forvarnir sem fylgt er eftir í framhaldsskóla. Eina leiðin til að koma í veg fyrir vaxandi neyslu á fíkniefnum er að reka gífurlega öflugar forvarnir og við eigum að verja til þess svo miklu, miklu meiri fjármunum. Af því að ef eitthvað er fjárfesting í mannauðnum, ef eitthvað er fjárfesting í börnunum, þá eru það forvarnir gegn neyslu á fíkniefnum.

Þess vegna beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. nýs heilbrigðismálaráðherra:

Hvernig á að standa að þessum málum á næstu missirum? Á að auka fjármagn verulega til forvarna vegna fíkniefna? Og með hvaða hætti á að verja þeim fjármunum?