133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

forvarnir í fíkniefnamálum.

149. mál
[14:51]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Fíkniefnin eru hættulegur vágestur eins og við vitum öll og nýlegar fréttir eru dæmi um. Það sem fær mig hins vegar til þess að koma hér í ræðustól eru þau orð hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um að loforð Framsóknarflokksins frá árinu 1999 um framlög til fíkniefna- og forvarnamála hafi ekki verið efnd. Það er alrangt eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra áðan vegna þess að það hefur verið og reiknað út að milljarðurinn var ekki einn heldur urðu þeir tveir. Og eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra þá er það ekki eingöngu heilbrigðisráðuneytið sem sinnir forvörnum á þessu sviði, það er líka félagsmálaráðuneytið, það er á vegum dómsmálayfirvalda og í fleiri ráðuneytum.

Það er unnið gott starf á sviði forvarna, hefur verið og verður vonandi svoleiðis áfram.