133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

forvarnir í fíkniefnamálum.

149. mál
[14:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Við skulum ekki deila um hvernig framsóknarmilljarðurinn til forvarna í fíkniefnamálum hafi verið svikinn eða hve illa og mikið. Staðreyndin er sú að okkur hefur mistekist, íslensku samfélagi hefur mistekist.

Auðvitað fer forvarnastarfið víða fram en þetta var nú gert að sérstöku kosningamáli hér um árið og engin ástæða fyrir framsóknarmenn til að verða svo hvumpnir þó að málið sé rætt í sölum Alþingis enda enginn að kenna þeim um aukna fíkniefnaneyslu landinu, en stjórnmálamenn eiga að sjálfsögðu að standa við slík loforð. Ég spurði einungis eftir því hvernig þessir peningar hefðu komið fram og í hvað þeim hefði verið varið.

Við verðum að viðurkenna að sem samfélagi hefur okkur einfaldlega mistekist í þessum málum. Fíkniefnaneyslan hefur orðið að hálfgerðum faraldri meðal íslenskra ungmenna, hún er mjög útbreidd og við vitum það öll, og samfélagið er miklu teknara en nokkurn tíma áður vegna þessara mála. Það eru þúsundir íslenskra fjölskyldna í uppnámi og rúst út af fíkniefnaneyslu, yfirleitt ungmenna og unglinga sem leiðast út í þetta. Að sjálfsögðu eru mjög mörg ungmenni sem fara aldrei út í þetta og mörg sem koma sér út úr þessu en þetta er alvarlegt mál og eins og ég held að langflestir taki undir og viðurkenni þá eru forvarnirnar langbesta leiðin til að stemma stigu við neyslu fíkniefna, í stað þess að fara með þetta inn í réttarkerfið og stórherða refsingar og slíkt. Ég held að það skili okkur engu nema enn þá meiri ömurleika, ég held að öflugar forvarnir séu langbesta lausnin.

Við höfum ábyggilega sem samfélag ekki tekið þetta nægjanlega alvarlega í gegnum tíðina. Fíkniefnaneyslan hefur vaxið stórkostlega, og auðvitað úti um allan hinn vestræna heim, en það er okkar að berjast gegn henni með öllum tiltækum ráðum og hver og hvar sem framsóknarmilljarðurinn liggur nákvæmlega eða hvort hann liggur hvergi, það skiptir ekki öllu máli. Framtíðin skiptir máli og við eigum að verja meira fé til forvarnamála og ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að taka eindregið undir það, hvar svo sem framsóknarmilljarðurinn til fíkniefna er staddur.