133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

kostnaður vegna hjúkrunarrýma.

183. mál
[15:16]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Suðurk. Margrét Frímannsdóttir beinir til mín fyrirspurn í tveimur liðum. Í fyrri liðnum spyr þingmaðurinn hversu mörg sveitarfélög hafi verið krafin um of háar greiðslur vegna túlkunar ráðuneytisins á ákvæðum laga um 15% greiðsluþátttöku sveitarfélaga í stofnkostnaði, meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum vegna hjúkrunarrýma á svæðissjúkrahúsum, deildarsjúkrahúsum og almennum sjúkrahúsum, samanber úrskurð gerðardóms 8. september sl. og um hve háar upphæðir væri að ræða.

Í seinni lið spurningarinnar spyr þingmaðurinn: Hafa sveitarfélögin fengið þessar upphæðir endurgreiddar ásamt vöxtum? Ef ekki, hvenær verður það?

Tilboð í framkvæmdir við viðbyggingu við Sjúkrahúsið á Selfossi voru opnuð í október 2004. Fáum mánuðum seinna voru boðin út verk við endurbætur Sjúkrahússins á Siglufirði og endurbætur og endurbyggingu þakhæðar á efri hluta Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað.

Áður en framkvæmdir voru boðnar út höfðu farið fram viðræður við sveitarfélögin sem að málinu koma um greiðsluþátttöku þeirra í þessum verkefnum, eins og þá var talið að túlka ætti ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu. Fljótlega kom í ljós að aðilar voru ekki sammála um greiðsluskyldu sveitarfélaganna. Þann 18. ágúst 2004 gerðu ráðuneyti fjármála, heilbrigðis- og tryggingamála annars vegar og Samband íslenskra sveitarfélaga hins vegar með sér samkomulag um að reyna til þrautar að ná samkomulagi en vísa málinu til gerðardóms ef það tækist ekki.

Sama dag, 18. ágúst 2004, var einnig undirritað samkomulag milli fyrrgreindra ráðuneyta og sveitarfélagsins Árborgar um að sveitarfélagið greiddi 15% kostnaðar vegna byggingar hjúkrunardeildar sem rekin er sem hluti af Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi meðan á framkvæmdum stæði. Þar var einnig um það samið að ef samkomulag næðist, eða gerðardómur kvæði á um að kostnaðurinn skyldi falla á ríkið, endurgreiddi ríkið þá upphæð sem sveitarfélagið hefur innt af hendi með 4,5% ársvöxtum. Sams konar samningar voru síðar gerðir við hin sveitarfélögin sem hlut áttu að máli, Fjarðabyggð vegna framkvæmda við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og Siglufjarðarkaupstað.

Gerðardómur var kveðinn upp 8. september sl. og var niðurstaða hans sú að með breytingu á 34. gr. laga nr. 97/1999, sem gerð var með 11. gr. laga nr. 78/2003, voru sveitarfélög að fullu losuð undan skyldu til að greiða hlutdeild í kostnaði við stofnun, meiri háttar viðhald og tækjakaup vegna heilsugæslustöðva, svæðisdeilda og almennra sjúkrahúsa, þar með talið kostnaði vegna hjúkrunarrýma.

Kostnaðarhlutdeild og greiðslustaða í einstökum verkum er sem hér segir:

Sjúkrahúsið á Selfossi: Fyrirhuguð þátttaka Árborgar í fyrsta áfanga viðbyggingar við Sjúkrahúsið á Selfossi var í heild 78,3 millj. kr. Miðað við stöðu framkvæmda í lok september sl. var skuldbundinn hlutur Árborgar 35,7 millj. kr. Af þessari fjárhæð eru 8,7 millj. kr. vegna undirbúnings sem fram fór til loka árs 2002 og sveitarfélaginu bar að greiða samkvæmt þágildandi lögum. Samtals hefur sveitarfélagið greitt til Framkvæmdasýslu ríkisins sem sér um fjárreiður verksins 40,2 millj. kr. og til endurgreiðslu án vaxta eru 31,5 millj. kr. vegna framkvæmdanna frá og með árinu 2003. Vextir samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi til loka október eru 0,9 millj. kr. og heildarskuld við sveitarfélagið í lok október því 32,4 millj. kr.

Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Þar er staðan þessi: Fyrirhuguð þátttaka Fjarðabyggðar í verkinu var 17,9 millj. kr. Allt verkið er unnið eftir 2002. Sveitarfélagið hefur greitt 10,7 millj. kr. til verksins sem með vöxtum til loka október er 11 millj. kr. sléttar.

Þá er að lokum Sjúkrahúsið á Siglufirði. Fyrirhuguð þátttaka Siglufjarðarkaupstaðar í verkinu var 11,2 millj. kr. Allt verkið er unnið eftir 2002. Sveitarfélagið hefur ekkert greitt til verksins.

Sveitarfélögin hafa enn ekki fengið féð endurgreitt en það mun verða endurgreitt á næstu vikum.