133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi.

156. mál
[15:32]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra las upp ræðu sem fór honum frekar illa að lesa upp, kannski vegna þess að honum virtist ekki alls kostar sjálfum vera vel við það efni sem fram kom í ræðunni en þetta eru ekkert ósvipaðar ræður og við höfum heyrt á hátíðarstundum þegar hæstv. landbúnaðarráðherra kemur að Reykjum og heldur ræður um mannauð og glæsileik. Það sem vantaði í ræðuna var loforðið.

Það má minna hæstv. landbúnaðarráðherra á það að þegar Garðyrkjuskólinn á Reykjum rann inn í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri var því lofað af hans hálfu að á Reykjum yrði áfram nám með svipuðu sniði og verið hefur. Ég gat ekki heyrt að hæstv. landbúnaðarráðherra gæfi okkur neitt til kynna um það hvort hann ætlaði að standa við það loforð sem hann gaf þá. Lýsi ég eftir því eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson að hæstv. landbúnaðarráðherra tali nú skýrt, lesi ekki upp einhverja loðmullu og hátíðarræðu heldur svari skýrt hvort hann ætlar að standa við það loforð sem gefið var.