133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi.

156. mál
[15:33]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þann 29. apríl 2003 kom frétt í Morgunblaðinu og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra kom og skrifaði, með gullpennanum sínum, undir samning þess efnis að Garðyrkjuskólinn fái formlega heimild, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, til að útskrifa nemendur á háskólastigi. Guðni sagði þetta eina af stærri stundum lífs síns. Þetta gerði skólanum kleift að útskrifa nemendur með BS-gráðu, sem væri eðlilegt framhald af því starfi sem í skólanum væri unnið. Athygli vakti sú yfirlýsing ráðherra að hann sagðist vilja flytja Skógræktina að Mógilsá í Garðyrkjuskólann, selja eignir þar og nota hagnaðinn í að byggja upp byggingar Garðyrkjuskólans. Ráðherra sagði að engum dyldist að nú yrði að byggja upp og efla viðhald bygginga sem fyrir eru.“

Þetta var 29. apríl 2003. „„Garðyrkjuskólinn býr í hjarta þessarar þjóðar,“ sagði hæstv. ráðherra.“