133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi.

156. mál
[15:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Orð skulu standa. Orðin sem Guðni reit með gullpennanum forðum, hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson, og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir vitnaði til, skulu einnig standa. Skilaboðin frá hæstv. landbúnaðarráðherra og hæstv. menntamálaráðherra þessara landbúnaðarháskóla voru ákaflega skýr. Það skal byggt upp á Reykjum. Hann endurtók fyrri loforð en efndirnar skortir. Hæstv. landbúnaðarráðherra verður að nota þetta tækifæri eftir áfrýjanir þingheims um að áfram skuli byggt upp og láta orðin frá 2003 standa, orðin sem komu úr gullpennanum. Hæstv. ráðherra verður að ítreka það hér og taka af öll tvímæli þar um. Hæstv. ráðherra talar hér eins og það sé á reiki hvaða nám skuli starfrækt þar.

Auðvitað liggur það fyrir að mestu leyti hvað sem kemur út úr starfshópnum. Það þýðir ekki að þvæla málinu til og frá mánuðum saman út af því. Óvissan hefur haft vond áhrif á námið. Hún hefur dregið úr aðsókn að náminu, starfsaðstaða skólans er vægast sagt hörmuleg. Skólinn hefur drabbast niður út af því að þriggja ára gamalt loforð hefur ekki verið efnt. Ég efast ekki um að hæstv. ráðherra meinar það sem hann segir hér og þegar hann endurtekur loforðin um að það skuli byggt upp á Reykjum. Hann verður þó að taka af öll tvímæli. Það verða að koma tímasetningar. Framtíðarmúsíkinni verða að fylgja fjármunir. Annars tekur enginn mark á orðum hæstv. ráðherra sem eru endurtekin ár eftir ár, gang eftir gang. Það verður að efna loforðin frá 2003.

Hæstv. ráðherra, þú hefur nú hjá þér valdið yfir því hvernig fara skuli fyrir þessari merkilegu menntastofnun. Taktu af öll tvímæli þar um.

(Forseti (SAÞ): Forseti biður þingmenn að gæta þess að ávarpa ekki þingmenn og ráðherra beint, heldur fara að reglum þingsins.)