133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

niðurstöður nýrrar könnunar um launamun kynjanna.

[15:47]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að taka þetta mál upp, reyndar öðru sinni. Ég vil í fyrsta lagi segja að það var í rauninni stór ákvörðun og mjög góð að ráðast í þá viðamiklu launakönnun sem hér er til umræðu og það er ljóst að niðurstöður hennar hafa þegar vakið upp mikilvæga umræðu um þessi mál. Ég vil ekki draga úr því að niðurstöðurnar ollu bæði mér og öðrum miklum vonbrigðum og þær staðfesta þá stöðnun sem virðist vera ríkjandi í jafnlaunamálum hér á landi og í nágrannalöndum okkar.

Ég vil hins vegar undirstrika að sem betur fer má finna jákvæðar vísbendingar um að breytinga megi vænta varðandi áhrif fjölskylduábyrgðar á vinnumarkaði hér á landi. Það eru að mínu mati stóru tíðindin í niðurstöðum könnunarinnar að svo virðist sem löggjöf um þriggja mánaða fæðingarorlof feðra, sem við alþingismenn samþykktum og studdum og hefur vakið athygli víða um heim, sé að hafa mælanleg áhrif á fjölskylduábyrgð og þar með stöðu kynjanna á vinnumarkaði hér á landi. Þá koma fram vísbendingar um að yngsta kynslóð kvenna, á aldrinum 15–25 ára, hafi annað hugarfar og sé reiðubúin að gera aðrar kröfur en fyrri kynslóðir virðast gera. Það er í mínum huga mikilvægt og ég fagna því að sjálfsögðu persónulega að ég geti vænst þess að dóttir mín sé í þeim hópi og verði jafnákveðin og bróðir hennar að sækja þennan sjálfsagða rétt, þessi mannréttindi sér til handa.

Hv. fyrirspyrjandi spyr til hvaða aðgerða ég hyggist grípa og ég vil tiltaka eftirfarandi atriði af þeim fjölmörgu sem upp hafa komið í umræðu í félagsmálaráðuneytinu. Mér finnst augljóst að ábyrgðin sé þeirra sem ákvarða launin. Ég stóð fyrir góðri ráðstefnu um könnunina í síðustu viku í Háskólanum á Bifröst þar sem leiddir voru að borðinu fulltrúar launafólks og vinnuveitenda ásamt fulltrúum einkafyrirtækja sem eru til fyrirmyndar þegar jafnlaunamál eru annars vegar. Þar kom fram mikill samhljómur og upplýsingar um ýmsar raunhæfar aðgerðir sem unnið er að innan ólíkra fyrirtækja og hugmyndir sem áhugavert verður að fylgjast með og vinna frekar úr.

Ég mun líka kalla til mín valinn hóps fólks sem hefur gríðarlega þekkingu og reynslu þegar launajafnréttismál eru annars vegar. Ég vil fá það í lið með mér við að draga fram þau tæki sem við teljum að séu áhrifaríkust. Þetta gerist á næstu dögum. Ég hef jafnframt kynnt málið í ríkisstjórn og hvatt ráðherra til aðgerða á vegum ráðuneyta sinna og það hefur hlotið góðar undirtektir og því verður fylgt eftir. Þá bind ég miklar vonir við að þverpólitísk nefnd, sem vinnur nú að endurskoðun jafnréttislaganna undir stjórn Guðrúnar Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara, skili mér góðum tillögum í þessu efni en nefndin hefur sérstaklega kynnt sér hinar ítarlegu niðurstöður sem liggja fyrir í umræddri rannsókn. Loks vil ég nefna að ég hef nýverið fengið öfluga konu til liðs við okkur í nefnd um vottun jafnra launa og ég bind vonir við að sú nefnd skili mér tillögum um vottun og önnur tæki sem gagnast geta vinnumarkaðnum.

Varðandi fyrirspurn um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum hef ég falið jafnréttisráði að vinna slíka framkvæmdaáætlun en get á þessu stigi ekki fullyrt hvenær endanlega áætlunin liggur fyrir.

Við yfirstandandi endurskoðun jafnréttislaganna óska ég eftir að farið verði yfir skilgreiningar í lögunum, t.d. hvað er sérstök aðgerð og hvað er jákvæð mismunun í 22. gr. laganna. Hér á landi hefur verið unnið að sérstökum aðgerðum til að koma á jafnrétti en jákvæðri mismunun hefur lítið verið beitt og hefur í sumum tilfellum þótt orka tvímælis. Ég vil að aðilar vinnumarkaðarins geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma á launajafnrétti. Ábyrgðin er fyrst og fremst hjá þeim sem taka ákvarðanir um laun einstakra starfsmanna á hverjum stað fyrir sig. Hvaða leið er best verður að kanna í þaula með þeim aðilum sem málið varðar.

Ég hef lýst því yfir að ég ætli að boða aðila vinnumarkaðarins á fund um launajafnréttismál og verður það gert mjög fljótlega. Ég vil að aðilar vinnumarkaðarins axli ábyrgð á þessum vanda og taki fullan þátt í að leysa hann. Ég er fylgjandi róttækum aðgerðum í þessum efnum sem vænlegar eru til árangurs og vil ræða það með opnum huga með lausnir að markmiði. Ég sé fyrir mér að sú leið sem hv. þingmaður nefnir hér í dag verði ein af þeim sem komi til álita. Öðrum hugmyndum hefur líka verið varpað fram svo sem að afnema launaleynd og að sérstakt fé verði sett til hliðar í kjarasamningum til þess að leiðrétta kynbundinn launamun. Þessi mál vil ég ræða opinskátt við aðila vinnumarkaðarins, enda er rík hefð fyrir slíku samráði í félagsmálaráðuneytinu sem fer með vinnumarkaðsmálin sem að verulegu leyti byggjast á þessu þríhliða samráði.

Ég lýsi því yfir við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að ég er reiðubúinn að beita mér í þessu máli til að leiðrétta kynbundinn launamun hjá hinu opinbera. Þar verða auðvitað fjármunir að fylgja og ég vil nefna hér að sérstakir fjármunir voru teknir til hliðar við gerð síðustu kjarasamninga gagnvart SFR og verið er að vinna að útfærslu þeirra mála. Það er skoðun mín að hinu opinbera beri að sýna gott fordæmi. Það hef ég sagt áður og ítreka enn og aftur hér.